Þriðjudagur 15. janúar 2002

15. tbl. 6. árg.

Í nýjasta tölublaði tímaritsins The Economist eru birtar tölur yfir fjölda starfsmanna seðlabanka víða um heim. Gefinn er upp fjöldi starfsmanna á hverja 100.000 íbúa og vekur athygli að í Seðlabanka Evrópu og í seðlabönkum ríkjanna á evrusvæðinu er þessi fjöldi 18,3 seðlabankastarfsmenn á hverja 100.000 íbúa, eða 56.000 starfsmenn í heild. Þetta er rúmlega tvöfaldur sá fjöldi, 8,3 á 100.000 íbúa, sem dugar til að halda Seðlabanka Bandaríkjanna gangandi. Er sá banki þó býsna stór, flókinn og dreifður víða um Bandaríkin. Seðlabanki Bretlands, Englandsbanki, er ekki með nema 3,9 starfsmenn á hverja 100.000 íbúa, og kann það að hafa sitt að segja um að Bretar verða æ minna áhugasamir um að ganga skrifræðinu í Brussel á hönd umfram það sem orðið er.

Nú halda því vafalaust einhverjir fram að mikilvægt sé að hafa mikið af vel menntuðum mönnum í seðlabönkum til að stýra peningamálum. Eins og tölurnar hér að ofan sýna er þó ekkert samhengi á milli umsvifa seðlabanka og árangurs þeirra, evran hefur ekki reynst eins traustur gjaldmiðill og Bandaríkjadalur eða breskt pund þó hlutfallslega mun fleiri vinni við að gefa út evruna en dalinn eða pundið. En þetta þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart, ríkið – ekki síst yfirþjóðlegt ríki Evrópusambandsins – hefur tilhneigingu til að auka umsvif sín án þess að árangur af starfsemi þess aukist þar með.

Til gamans má bæta hér við nokkrum tölum til viðbótar. Ekki þarf að koma á óvart að í Kína eru seðlabankastarfsmenn flestir, eða 150.000, enda hjálpast þar að fjölmenni og skrifræði sósíalismans. Næst fjölmennastir eru seðlabankastarfsmenn í Rússlandi, 83.000, eða 55,5 á hverja 100.000 íbúa. Ekki hefur þessi mikli fjöldi þó tryggt traustan gjaldmiðil frekar en á evrusvæðinu. Á Íslandi starfa 119 manns í Seðlabankanum – eða þiggja að minnsta kosti laun frá honum – og gera það um 42 starfsmenn á hverja 100.000 íbúa landsins. Þessi fjöldi er býsna nálægt því að vera heimsmet og þar kemur fámennið að notum eins og fyrri daginn þegar Íslendingar bera sig saman við aðra. Tvö ríki standa að vísu betur í þessari vafasömu keppni, Rússland eins og nefnt er hér að ofan, og Cayman eyjar. Þar gerir fámennið það að verkum að 87 starfsmenn seðlabanka eyjanna skila þeim tæpum 245 starfsmönnum á 100.000 íbúa og þar með jafnvel heimsmeti.