Það hefur færst í vöxt hin síðari ár að ýmsar opinber ráð og nefndir verðlauni „afreksfólk“. Í vikunni veittu forstjóri og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur viðurkenningar fyrir bestu jólaljósin í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akranesi og víðar. Í hverri viku koma listamenn til stjórnmálamanna í einhverju sveitarfélaginu og taka við viðurkenningum og gerast bæjarlistamenn. Menningarverðlaun af ýmsu tagi streyma frá opinberum apparötum, ráðuneytinu, bæjarstjórnum, Ríkisútvarpinu o.s.frv. Forseti Íslands fer orðið vart af bæ án þess að útdeila hvatningarverðlaunum sínum enda var það stefna hans sem forsetaframbjóðanda að draga úr tilgerð og tildri í embætti forsetans. En verðlaunaútbýtingar forsetans og jólaperukeppni Orkuveitunnar eru þó kannski ekki sama áhyggjuefni og verðlaun ýmissa annarra opinberra aðila. Það er í sjálfu sér engin sérstök formúla að því að fá verðlaun forsetans, hvort sem um hvatningarverðlaun hans eða orður er að ræða. Yfirleitt þurfa menn ekki að gera annað en að sinna störfum sínum af skyldurækni, hvort sem er í félagsmálum eða atvinnu.
Sú tegund verðlauna sem er meira áhyggjuefni eru ýmsar viðurkenningar sem í raun eru veittar fyrir pólitíska rétthugsun. Með öðrum orðum þurfa menn að gera eða segja eitthvað sérstakt til að fá verðlaunin, haga sér á réttan hátt. Umhverfisráðuneytið hefur til dæmis á ári hverju verðlaun fyrir umfjöllum um umhverfismál. Já, menn geta unnið til verðlauna frá ráðherra með því að blaðra á réttan hátt um umhverfismál. Og hér starfa blaðamenn sem sjá ekkert athugavert við það að þiggja slík verðlaun stjórnvalda. Handhafar „fjórða valdsins“ eru bara roggnir með viðurkenninguna frá „þriðja valdinu“. Sveitarfélög eru einnig með látlausar umhverfisviðurkenningar af ýmsu tagi, allt frá því að verðlauna umhverfismálainnrætingu leikskólabarna til afhendingar verðlaunaskjals til forstjóra fyrirtækja sem hafa sópað hjá sér stéttina og gert huggulegt hjá sér til að fæla ekki viðskiptavini frá. En líklega eru það jafnréttisviðurkenningar og jafnréttisverðlaun sem njóta mestrar hylli um þessar mundir. Ekkert sveitarfélag virðist vera svo aumt að það hafi ekki jafnréttisnefnd eða a.m.k. „jafnréttisfulltrúa“. Frá þeim streyma viðurkenningar fyrir pólitíska rétthugsun og rétta hegðun í þessum málum.