Fimmtudagur 10. janúar 2002

10. tbl. 6. árg.

Frederick Forsyth heitir maður og er einn af kunnari rithöfundum samtímans. Skáldsögur hans hafa selst í tugmilljónum eintaka og munu spennusögur á borð við Dag sjakalans og Odessa-skjölin þar þekktastar. En Forsyth skrifar fleira en spennandi sögur og á dögunum birtist lítið bréf frá honum á lesendasíðu enska blaðsins The Sunday Telegraph. Bréf Forsyths ber fyrirsögnina „Evrópusambandið vill að við endum svona eins og Ohio“ og er þar fjallað stuttlega um samrunaþróunina í Evrópu og hvert hún stefnir með aðildarríkin. Forsyth nefnir að Evrópusinnar noti nú æ oftar heitið USE í stað Evrópusambandsins og eigi það að standa fyrir yfirvofandi framtíðarríki, „The United states of Europe“, sem eigi að vera til samsvörunar við Bandaríki Norður-Ameríku. Segir Forsyth að af þessu tilefni sé tilvalið að huga að hver staða einstakra sambandsríkja sé innan þeirra bandaríkja sem menn hafa reynslu fyrir í dag.

Forsyth nefnir Ohio – en gæti vitaskuld hafa nefnt hvaða annað ríki Bandaríkjanna sem er – og segir um það: „Ohio hefur sinn eigin oddvita ríkisins og hann dvelst í ríkisstjórabústaðnum, Ohio hefur sínar eigin tvær deildir löggjafarþings, eigin landamæri og eigin fána, eigin ríkislögreglu, þjóðvarðlið, réttarfar, dómstóla, lög og skatta. En Ohio getur engan vegin talist sjálfstæð þjóð. Hvernig sem þjóð er skilgreind þá stendur Ohio skör lægra en Washington. Í stuttu máli sagt: „Ríkið“ Ohio er einungis stjórnsýslueining innan sambandsríkis.“ Frederick Forsyth segir augljóst að það sé sama samband og Evrópusambandið vilji í framtíðinni hafa milli sín og „sambandsríkja“ sinna.

Og þeir sem fylgst hafa með þróuninni í Evrópu hljóta að átta sig á þessu. Meira að segja Tony Blair hefur nú viðurkennt að það eru pólitísk en ekki efnahagsleg rök sem valda því að tekinn hefur verið upp sameiginlegur gjaldmiðill Evrópusambandslandanna flestra. Það var gert til að venja íbúana við þá tilhugsun að þeir séu allir þegnar sama ríkisins. Forsprakkar Evrópusambandsins róa nú að því öllum árum að setja Evrópusambandinu sameiginlega stjórnarskrá, sameiginlegar hersveitir eru einnig mál málanna og svo mætti lengi telja. Evrópusambandið þróast hratt í að verða að einu sambandsríki þar sem aðildarlöndin gömlu hafa sjálfstjórn í vissum þýðingarlitlum málum en eru ekki sjálfstæð ríki – ekki frekar en Ohio.

Á Íslandi er rekinn hávær áróður fyrir inngöngu í þetta Evrópusamband og er margendurtekið að menn verði að reikna út kosti og galla aðildar og taka svo ákvörðun. Vefþjóðviljinn heldur því fram að kostir aðildar – umfram þá sem Íslendingar njóta í dag – séu næstum engir sé miðað við gallana. En aðild að Evrópusambandinu verður ekki eingöngu ákveðin eftir samlagningu kosta og frádrætti galla. Flestallir hljóta að sjá, að gangi Ísland í Evrópusambandið er þess í besta falli örskammt að bíða að það verði ekki lengur sjálfstætt ríki. Menn verða að gera það upp við sig hvort menn geta sætt sig við það eða ekki. Þeir sem geta það ekki, þeir eiga engan kost annan en að hafna aðild að Evrópusambandinu, hversu mjög sem þá kynni að langa þangað inn af einhverjum ástæðum. Hinir, sem geta vel sætt sig við að Ísland verði ekki lengur sjálfstætt ríki, þeir geta farið að reikna út „kosti og galla“ aðildar. En menn ættu ekki að blekkja sig eða reyna að blekkja aðra. Ísland verður ekki í senn sjálfstætt ríki og fylki í Evrópusambandinu.