Þrátt fyrir að sífellt færri noti svonefndar almenningssamgöngur telja flestir stjórnmálaflokkar að „efla beri almenningssamgöngur“. Þrátt fyrir að mengun frá almenningssamgöngum sé síst minni en frá annarri umferð og í mörgum tilfellum meiri eru almenningssamgöngur lofaðar sem „umhverfisvænn kostur“. Þrátt fyrir að fleiri og fleiri kjósi eigin bíl í stað strætó heyrist ósjaldan að hækka beri skatta á bíla og linnulítið er aukið við fjárausturinn í rekstur hins opinbera á almenningsvögnum.
En kannski fara stjórnmálamenn að vakna af draumnum um að almenningur noti samgöngurnar sem ranglega eru við hann kenndar. Í Reykjanesbæ eru til að mynda komnar fram hugmyndir um að hætta akstri almenningsvagna en nota þá leigubíla sem fyrir eru í bænum í staðinn. Farþegar yrðu þá jafnvel sóttir heim að dyrum en þyrftu líklega að panta far sem kæmi í stað þess að labba og bíða í biðskýli. Í viðtali við Morgunblaðið segja þeir Hjálmar Árnason þingmaður og Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi frá þessari hugmynd: „Lauslegir útreikningar Kjartans Más og Hjálmars benda til að hægt yrði að draga mjög úr kostnaði Reykjanesbæjar við almenningssamgöngur með notkun leigubílanna. Er þá miðað við að 2,8 farþegar yrðu að meðaltali í ferð og farið kostaði 200 krónur á manninn eins og í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Hjálmar telur þó hugsanlegt að hafa gjaldið lægra. Kjartan Már tekur fram að mikið myndi vinnast, jafnvel þótt kostnaður yrði sá sami og við eldra kerfið. Bæjarbúar fengju mun betri og persónulegri þjónustu en hægt væri að veita með strætisvöngum. Þá vekur Hjálmar athygli á umhverfisþætti málsins. Nú aki stórir díselbílar hring eftir hring í bænum hvort sem í þeim eru fleiri eða færri farþegar, eða jafnvel enginn.“
Nú ber auðvitað að taka ýmsu í þessum málflutningi með fyrirvara enda hafa menn ekki góða reynslu af útreikningum stjórnmálamanna á hagkvæmni samgöngukosta á Reykjanesi, eins og nýleg skýrsla um hraðlest frá Reykjavík til Keflavíkur er til marks um. En þar var stofnkostnaði einfaldlega sleppt til að koma dæminu upp í núll. Og Hjálmar og Kjartan draga enga dul að ýmislegt þarf að skoða betur í þessu samhengi. En engu að síður eru þessar hugleiðingar þeirra til marks um að til eru stjórnmálamenn sem þora að hugsa um og jafnvel ræða opinberlega hvort réttlætanlegt sé að dæla skattfé í niðurgreiðslur á akstri stórra strætisvagna um bæi og borgir – vagna sem eru svo stórir og illa nýttir að meiri mengun er frá hverjum farþega í þeim en hverjum farþega í einkabíl.