Ýmsar skrafskjóður af vinstri vængnum spáðu ekki vel fyrir George W. Bush þegar hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir tæpu ári. Ein þeirra spurði til dæmis að því hvort „fífl“ tæki nú við sem forseti og fannst það líklegra en hitt. Þær hafa hins vegar haft heldur hljótt um sig að undanförnu þótt Bush hafi staðið í stórræðum á ýmsum sviðum. Hrakspárnar hafa ekki ræst og gífuryrðin verða fremur til minnis um höfundana en Bush. Óþarft er að fara hér mörgum orðum um frammistöðu Bush í kjölfar hryðjuverkanna í haust. Hana hafa menn fyrir framan sig í fjölmiðlum daginn út og inn. En ef nefna á önnur mál mætti nefna afstöðu forsetans til Kyoto samningsins en hann efndi það kosningaloforð sitt að hafna samningnum.
Í gær ritaði Óli Björn Kárason leiðara í DV þar sem sagði m.a.: „Árið 2001 hefur sýnt að George Bush hefur ekki aðeins möguleika til að verða farsæll forseti fyrir þjóð sína heldur ekki síður fyrir heimsbyggðina. Á heimavelli hefur hann tryggt sér sterka pólitíska stöðu, þó enn bíði hans erfið úrlausnarefni. Á alþjóðavettvangi hefur Bush tekist að skapa sér stöðu leiðtoga sem er yfirvegaður og fastur fyrir, skynsamur en harður í horn að taka.“
Björn Bjarnason menntamálaráðherra tekur í svipaðan streng í pistli á heimasíðu sinni um áramótin: „Árið 2001 verður talið sögulegt, þó ekki sé nema vegna eins atburðar, árásarinnar á New York og Washington hinn 11. september. Þessi atburður hefur djúptækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir á líðandi stundu, hann mun móta afstöðu kynslóða manna til samskipta sín á milli og við hann verður miðað, þegar leitað verður skýringa á ákvörðunum, sem setja svip á framtíðina. Viðbrögðin við árásinni verða notuð sem mælistika á leiðtogahæfileika forystumanna margra þjóða og til þeirra verður vitnað til að kanna skoðanir stjórnmálamanna í stærra samhengi. Það sést til dæmis nú þegar, að framgöngu George W. Bush Bandaríkjaforseta er líkt við hina fremstu, sem gegnt hafa því háa embætti, og ekki síður við þá, sem nutu lítils álits margra við embættistöku en uxu síðan af störfum sínum og skynsamlegum ákvörðunum.“