Í öðrum kafla bókarinnar Tax Competition: An Opportunity for Iceland? sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í haust segir Turlough O’Sullivan framkvæmdastjóri félags írskra atvinnurekenda frá þeim breytingum sem átt hafa sér stað í efnahagsmálum á Írlandi frá miðjum níunda áratug síðustu aldar. Ef til vill sýnir taflan hér að neðan ágætlega hvernig ástandið hefur breyst á Írlandi en tölurnar eru fengnar úr grein O’Sullivans.
1988 | 2000 | |
Afkoma ríkissjóðs, hlutfall af þjóðarframleiðslu | -10 | +3,5 |
Þjóðarframleiðsla á mann sem hlutfall af meðaltali ESB | 70% | 100% |
Atvinnuleysi | 17% | 3% |
Menn í vinnu | 1,0 milljón | 1,75 milljónir |
Hlutfall launþega á almennum vinnumarkaði í verkalýðsfélögum | 80% | 25% |
Þessar fimm stærðir hafa allar þróast jafnt og þétt í jákvæða átt. Þær gefa því nokkuð góða mynd af því hvernig Írum hefur tekist að snúa í raun afleitu ástandi í nokkuð gott. En hvernig fóru þeir að því? O’Sullivan nefnir nokkrar ástæður til sögunnar:
Hann nefnir að í fyrsta lagi hafi Írland verið opið fyrir erlendri fjárfestingu. Með aðildinni að Efnahagsbandalagi Evrópu og síðar ESB hafi landið verið opið fyrir fjárfestingu frá öðrum Evrópulöndum. Eftir 1988 var tekjuskattur framleiðslufyrirtækja lækkaður í 10% en þjónustugreinar báru 35-36% skatt sem hefur verið lækkaður í 20%. Á næstunni er gert ráð fyrir að allar atvinnugreinar verði með sama 12,5% skattinn. „Það gefur okkur augljóslega forskot í skattalegu tilliti. Félagar okkar í ESB eru ekki ánægðir með þetta. En til allrar hamingju náðum við að halda neitunarvaldi okkar í skattamálum þegar Nice samningurinn var gerður. Írar munu að sjálfsögðu gæta þess að glata ekki þessu forskoti í framtíðinni“, segir O’Sullivan. Hann þakkar framfarirnar einnig góðri almennri menntun á Írlandi og að á sama tíma og breytingarnar áttu sér stað varð uppsveifla í efnahagsmálum heimsins. En síðast en ekki síst nefnir hann að menn hafi hætt að semja um kaup og kjör á landsvísu og fært samninga til launþega og fyrirtækjanna sjálfra. Með þessari breytingu hafi launþegar hafi áttað sig á því að afkoma góð afkoma fyrirtækis gat skilað sér í launaumslagið.
O’Sullivan tínir einnig til ýmis vandamál sem Írar eiga engu að síður við að glíma um þessar mundir. Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega svo menn á venjulegum launum eiga þess vart kost að eignast þak yfir höfuðið í borgum. Samgöngumannvirki hafa ekki ráðið við aukna umferð þar sem skipulagsmál eru föst í flóknu reglugerðakerfi. Verðbólga hefur hækkað upp í tæp 7% en vonir standa til að hún hægi á sér á næstunni. Ríkisútgjöld hafa aukist um 8-10% á ári á síðustu árum.
O’Sullivan lýkur kafla sínum í Tax Competition: An Opportunity for Iceland? með eftirfarandi orðum: „Í fáum orðum má segja að okkur hafi tekist að sannfæra Íra um að sterk staða atvinnulífsins er lykillinn að velgengni. Þegar vel gengur í atvinnulífinu verða til auknar skatttekjur sem nota má til að lækka skatta enn frekar. Þessi leið heldur niðri kostnaði fyrirtækja. Samspil hóflegra launahækkana og skattalækkana er grunnurinn að því sem við höfum gert á síðustu árum. Ef ég ætti að færa Íslendingum eitt heilræði þá væri það: Lækkið skattana!“