Það vantar ekki, þeir eru umburðarlyndir, vinstri mennirnir. Að minnsta kosti þreytast þeir ekki á að tala um þetta umburðarlyndi sitt og ef gefst færi á að auglýsa víðsýni sína í orðum eða með öðrum óáþreifanlegum hætti þá eru þeir yfirleitt fyrstir mættir, gangandi með borða, fleytandi kertum, þvaðrandi um fjölmenningarsamfélag og með amnesty-merki í barminum. En þetta umburðarlyndi á víst bara stundum við. Sumt umbera þeir bara alls ekki og má þá einu gilda hvort þar er verið að brjóta rétt nokkurs manns eða troða nokkrum manni um tær. Og þá eiga sko ekki við allar ræðurnar um fjölbreytta menningu, misjafnt gildismat og virðingu fyrir vali annars fólks.
Erótískir skemmtistaðir eru skýrt dæmi um það sem umburðarlyndir vinstri menn umbera ekki. Þar dansar klæðlítið fólk, oftast konur en einnig karlmenn, fyrir annað fólk og munu dansararnir hafa góðar tekjur af starfi sínu. Þá munu ýmsir þeirra njóta vel þeirrar athygli sem starfinu fylgi og hafa sagt í viðtölum að hún sé þeim litlu minna virði en starfið sjálft. En þetta þola hinir umburðarlyndu ekki. Fyrir þeim er erótískur dans í öllum tilfellum niðurlægjandi þrælahald, dansararnir allir á sviðinu gegn vilja sínum og áhorfendurnir allir hin verstu fúlmenni. Veitingamennirnir sem hafa milligöngu um dansinn eru þrælahaldarar og víða um bæinn eru umburðarlyndir vinstri menn á barmi taugaáfalls yfir þessu og þykir þeim sem öll meðul séu leyfileg til að útrýma þessari starfsemi úr fjölmenningarsamfélaginu.
Í nýjasta tölublaði hins víðsýna málgagns íslensks umburðarlyndis, Veru, er vitaskuld fjallað um þetta mansal sem stundað er víða um land þessi misserin. Kemur þar fram, eins og Vefþjóðviljinn hefur reyndar vikið að með heldur minni velþóknun en Vera gerir, að sveitarfélögin hafi nú mörg hver ráðist gegn erótísku stöðunum með vægast sagt hæpinni aðferð. Eða eins og Vera segir: „Sú aðferð felst þó ekki beinlínis í að banna staðina, heldur frekar að leyfa þá hvergi með því að gera ekki ráð fyrir þeim í skipulagi sínu.“ Eins og Vefþjóðviljinn sagði á sínum tíma þá getur sú „aðferð“ ekki talist annað en gróf misnotkun á heimildum sveitarfélaga til skipulags enda dytti væntanlega engum í hug að slík „aðferð“ fengi staðist gegn nokkurri annarri löglegri starfsemi, svo sem rekstri skóbúða, reiðhjólaverkstæða eða óperuhúsa.
En hinir umburðarlyndu vinstri menn munu líklega aldrei sjá neitt að því að beita hvaða ráðum sem er til að banna það sem þeir eru á móti. Og þeir eru ekkert lítið á móti erótískum skemmtunum. Sá alþingismaður sem mest hefur lagt á sig til að auglýsa umburðarlyndi sitt og fordómaleysi er sennilega Guðrún Ögmundsdóttir. Vera gekk á fund Guðrúnar: „Konur í Samfylkingunni hafa látið málið til sín taka og Vera ræddi því við Guðrúnu Ögmundsdóttur, þingkonu flokksins. Hún sagði að mál nektarstaða væru til skoðunar hjá þingflokknum og að þar væri unnið að finna lausn á málinu. Slíka lausn telur Guðrún þurfa að fela í sér að nektarstaðir verði bannaðir, eða að sveitarfélögum verði veitt heimild með lögum til að stöðva slíka starfsemi.“
Og Vera ræðir einnig við Kristínu Blöndal formann „jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar“. Sú er ekki síður herská en hún vill einnig hefja umræðuna „upp á hærra plan“. Hún vill nefnilega ekki „að umræðan snúist um svokallað frelsi kvenna til að iðka atvinnu sína og mikilvægi þess að uppfylla eftirspurn markaðarins heldur um niðurlægingu þeirra sem atvinnu hafa af líkama sínum á þennan hátt.“ Þannig er þetta þá. Það hafa sem sagt allir sömu viðhorf og gildismat og Kristín Blöndal. Það er svo útilokað að nokkur karl eða kona á þessum hnetti hafi önnur viðhorf en Kristín að það má alveg beita opinberu valdi til að taka slíkt fólk úr umferð og banna starfsemi þess. Svo Kristín Blöndal þurfi ekki að þola það að einhvers staðar úti í bæ sé eitthvert fólk að gera eitthvað sem Kristínu Blöndal þætti sjálfri niðurlægjandi.
Samt er það fólk sem starfar á erótísku skemmtistöðunum eingöngu að taka við fé af því fólki sem ráðstafar því af fúsum og frjálsum vilja. Starfsmenn erótísku staðanna taka ekki skattfé með valdi af fólki og nota ekki heldur opinbert vald til að þvinga lífsviðhorf sín upp á annað fólk. Menn geta alveg velt því fyrir sér hvor hópurinn, fólkið á erótísku stöðunum eða fólkið með opinbera valdið, stundar geðfelldari starfsemi.