Í Lögum sínum vekur Frédéric Bastiat athygli á því ómerkilega mælskubragði að úthrópa menn andstæðinga ákveðinna mála ef viðkomandi er því andvígur að ríkið hlutist til um þau mál. Þannig eru andstæðingar aukins fæðingarorlofs sagðir á móti því að foreldrar séu hjá börnum sínum. Andstæðingar ríkisreksturs á skólum eru sagðir á móti menntun. Þeir sem vilja skilja að ríki og kirkju eru sagðir á móti trúnni. Og svo mætti lengi telja.
Þeir sem eru andvígir ríkisrekstri og ýmsum ríkisprógrömmum eins og fæðingarorlofi eru það reyndar ekki af tómum skepnuskap. Flestir telja einfaldlega að þessum málum verði betur stjórnað af einstaklingunum en örfáum stjórnmálamönnum. Það eru til dæmis til fleiri leiðir til að auka framlög til menntamála en að ríkið aukið þau. Með skattalækkunum og auknu frelsi einstaklinganna til að ráðstafa sjálfsaflafé sínu má ekki síður gera ráð fyrir að fjárfesting í menntun aukist – og kannski þá menntun sem þörf er fyrir enn ekki bara í þeirri sem ákveðið er á Alþingi.
En hvað með velferðarkerfið? Já, hvað með það? Ætli hæstu félagslegu bæturnar úr einkareknu velferðarkerfi færu til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar? Í hinni ríkisreknu samhjálp sem nefnist fæðingarorlof hefur það orðið ofan á að veita mest til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar. Ætli einhver fengist til að leggja fram fé til frjálsrar samhjálpar af þessu tagi?