Mánudagur 24. desember 2001

358. tbl. 5. árg.

Það er ekki úr vegi að hugsa til Sviss á aðfangadag. Hvað er jólalegra en bjálkahús í snævi þöktum fjallasal? En það eru fleiri ástæður til að hugsa til Sviss í snjóleysinu hér á Íslandi. Í haust gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út bók undir nafninu Tax Competition: An Opportunity for Iceland? Í bókinni er að finna 11 ritgerðir eftir Íslendinga og útlendinga sem flestir flutti erindi á samnefndri ráðstefnu um skattamál í haust. Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Tryggvi Þór Herbertsson ritstýrðu bókinni. Höfundar hennar hafa allir lagt höfuðið í bleyti til að svara þeirri spurningu sem varpað er fram með bókarheiti.

Í fyrsta kafla bókarinnar er einmitt fjallað um Sviss. Það gerir dr. Victoria Curzon-Price prófessor í hagfræði frá Genf í kaflanum How to Become a Rich Country: Lessons from Switzerland. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Svisslendingar hafa um langa hríð veitt afbragðs fjármálaþjónustu og þar eru höfuðstöðvar margra alþjóðlegra stórfyrirtækja í lyfja- og efnaiðnaði, matvælaframleiðslu og fleiri greinum. Enda eru Svisslendingar ein ríkasta þjóð í heimi. Curzon-Price lýsir ástandinu í Sviss með skemmtilegum hætti á nokkrum blaðsíðum. Þrátt fyrir að einungis 7,1 milljón manna búi í Sviss má deila íbúunum niður í þjóðarbrot eftir trúarbrögðum og nokkrum tungumálum. Svo má skipta þeim eftir því hvort eru undir áhrifum frá Þýskalandi norðursins eða Miðjarðarhafslöndum suðursins. Svo eru bæði sveitamenn og borgarbúar. Í Sviss eru einnig margir innflytjendur. Landið skiptist í 26 kantónur sem hafa 14.500 til 1,2 milljónir íbúa hver. Þær hafa mikla sjálfstjórn og minnir lýsing Curzon-Price fremur á ríki Bandaríkjanna en til dæmis sveitarfélög á Íslandi. Á milli þeirra er talsverð samkeppni um að búa fólki og fyrirtækjum hagstæð skilyrði, til dæmis með lágum sköttum. Þær kantónur sem reynt hafa að bæta á nýjum sköttum eins og fjármagnstekjuskatti, sem Saint Gallen og Valis tóku upp á áttunda áratugnum, finna fljótt fyrir flótta fólks og fjármagns. Fjármagnstekjuskatturinn var því fljótt aflagður í kantónum tveimur. „Hin mikla smæð stjórnmálalegra eininga gerir það einnig að verkum að þingmennska er ekki fullt starf. Þingið situr aðeins nokkrar vikur á ári. Gert er ráð fyrir að þingmenn séu í launuðu starfi í hinu „raunverulega“ hagkerfi. Þar sem þeir þurfa að afla sér lífsviðurværis utan stjórnmálanna eru þeir með báða fætur á jörðinni og í tengslum við venjulegt fólk. Þeir hafa því góða mynd af því sem aðrir eru að hugsa og hvaða verkefni er raunhæft að ráðast í“, segir Curzon-Price.

Curzon-Price nefnir svo tvær meginástæður fyrir því að Svisslendingar eru svo ríkir sem raun ber vitni. Hin fyrri er lágir skattar. Árið 1997 var skattheimta í Svíþjóð 61,5% en helmingi minni í Sviss. Engu að síður voru skatttekjur af hverjum manni svipaðar í báðum löndunum. Lágir skattar draga að fyrirtæki og örva atvinnulíf sem fyrir er. Háir skattar hrekja fyrirtæki og fjármagn á brott. Hin ástæðan er svonefnd bankaleynd. Samkvæmt svissneskum lögum hefur samband banka og viðskiptavinar verið þeirra einkamál. Árið 1998 voru þó sett lög sem skylda fjármálastofnanir til að skoða viðskiptavini sína og láta yfirvöld vita ef óhreint mjöl er í pokahorninu. Samtök banka hafa einnig sett sér reglur til að sporna gegn peningaþvotti.

Curzon-Price sér þó ýmis vandamál við sjóndeildarhringinn. Til dæmis hafi kantónurnar skuldsett sig óhóflega. En stærstu ógnina við velmegun Svisslendinga telur hún þó vera þrýsting frá nágrannalöndum með háa skatta um að bankaleynd verði aflétt og sparifé frá íbúum þessara nágrannalanda sem liggur í svissneskum böndum verði skattlagt.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.