Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi sagði Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins að það væri fráleitt að taka upp aðra mynt en þau lönd sem „við ætlum okkur að eiga viðskipti við“ nota. Þær þjóðir sem Sveinn Hannesson hefur ákveðið að Íslendingar, allir sem einn, ætli að eiga viðskipti við eru nokkrar þjóðir Evrópu sem frá næstu áramótum ætla sér að nota sameiginlegan gjaldmiðil. Sveinn gefur ekkert fyrir þá sem ætla sér að eiga viðskipti við aðrar þjóðir. Þó eru um 2/3 af utanríkisviðskiptum Íslendinga einmitt við aðrar þjóðir en Sveinn fullyrðir að við „ætlum okkur“ að eiga viðskipti við. Utanríkisviðskipti Íslendinga eru að stórum meiri hluta við önnur lönd en taka upp evruna um næstu áramót. Það er ekkert sérstakt sem bendir til að það muni breytast verulega í þá átt sem Sveinn Hannesson „ætlar okkur“.
Þessi þröngsýni, sem sumir kalla Evrópustefnu, hefur gert vart við sig að undanförnu vegna erfiðrar fæðingar á „Evrópustefnu“ Samfylkingarinnar. Á meðan aðrir stjórnmálaflokkar hafa utanríkisstefnu hefur heimurinn skroppið saman í hugum Samfylkingarmanna. Nú má ekki hugsa um utanríkismál nema það varði samskipti Íslendinga við ESB, sem eru samtök ríkja sem eiga það sameiginlegt að þar fer atvinnuleysi helst ekki niður fyrir 10%.
Atli Harðarson vék að nauðhyggjunni sem einkennir umræðuna um Evrópumálin í Rabbi Lesbókar Morgunblaðsins á laugardaginn. Þar sagði Atli m.a.: „Þeir sem hallast á sveif með aðild [að ESB] segja margir sem svo að allar hinar Evrópuþjóðirnar ætli að vera með svo við verðum líka að gera það. Þessi rök eru álíka merkileg og þau sem lesin voru yfir mér þegar mér var kennt að reykja endur fyrir löngu. Þá var sagt: Það reykja náttúrulega allir. Ég gein við flugunni og ályktaði að þá hlyti ég að líka að reykja. Þetta var að sjálfsögðu kolröng ályktun. Hefði forsendan, að allir reyktu, verið sönn hefði ég þess heldur verið maður að meiri með því að segja nei. Í pólitískum þrætum á þriðja áratug síðustu aldar var svipuð hundalógik notuð af fylgismönnum kommúnisma. Þeir margstögluðust á því að byltingin kæmi hvort sem er, sósíalismi væri framtíðin og því þýddi ekkert að streitast á móti. Nú er ég hættur að reykja og kommúnismi kominn úr tísku. En hundalógik af fyrrgreindu tagi er enn notuð og einna helst af talsmönnum Evrópusamruna sem telja honum til gildis að vera með einhverjum hætti óumflýjanlegur. Vart þarf að taka fram að þessi rök eru einskis virði og ekkert annað en hreinn kjánaskapur að láta þau hafa áhrif á afstöðu sína.“
Nú fer hver að verða síðastur að panta Lögin eftir Frédéric Bastiat til jólagjafa en Andríki gaf ritið út í sumar í tilefni af því að 200 ár voru liðin frá fæðingu Bastiat. Þeir sem vilja fá bókina fyrir næstu helgi þurfa að panta hana í síðasta lagi á miðvikudaginn. Þeir sem treysta því ekki að sú geðuga ríkisstofnun Íslandspóstur – sem minnug afreka sinna í fyrra neitar nú að flytja annan varning en þann sem er sérlega geymsluþolinn – muni halda áætlun fyrir jólin, ættu jafnvel að hugsa málið enn skemur og panta í dag eða á morgun. Panta má bókina með því að smella á hana hér til hliðar.