Þriðjudagur 18. desember 2001

352. tbl. 5. árg.

Í kjölfar útgáfu bókarinnar Höfundar Íslands eftir Hallgrím Helgason hefur farið af stað nokkur umræða um hlut Halldórs Laxness í stjórnmálaumræðu síðustu aldar, ekki síst um linnulausan áróður Halldórs fyrir draumaríkinu í austri, Sovétríkjunum. Fáir þekkja hlut Halldórs betur að þessu leyti en Arnór Hannibalsson prófessor. Fyrir þarsíðustu jól kom einmitt út bók eftir Arnór þar sem hann fjallar um þessi mál. Vefþjóðviljinn sagði þá frá bókinni með þessum orðum:

Í nýútkominni bók, Moskvulínunni, segir prófessor Arnór Hannibalsson frá afstöðu Halldórs Laxness til Sovétríkjanna, Stalíns og kommúnismans. Það rekur sjálfsagt marga, ekki síst af yngri kynslóðinni, í rogastans við að lesa hve einlægur stuðningsmaður Stalíns, Sovétríkjanna og kommúnismans Halldór var í raun og hve hart hann beitti sér í þágu þeirra með skrifum í blöð og bækur. Hér eru rakin nokkur dæmi af mörgum úr Moskvulínunni um hollustu Halldórs við sovéska kommúnistaflokkinn.

Halldór ferðaðist fram og til baka um Úkraínu árið 1932 þar sem fólk dó í hrönnum úr hungri. Í Sovétvininum í júli 1934 skrifaði hann um þessa för sína: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilangt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg hungursneyð. Hvar sem maður kom var allt í uppgangi.“

Dag einn vorið 1938 var Halldór staddur í íbúð þýskrar stúlku, Veru Hertzsch, sem bjó í Moskvu. Vera átti eins árs gamla dóttur með Benjamíni Eiríkssyni, sem var í Stokkhólmi þegar þetta gerðist.  Fyrir augunum á Halldóri Laxness kom leyniþjónusta Stalíns og handtók hana. Barnið var tekið og sennilega sent á munaðarleysingjahæli. Síðan hefur ekkert spurst til Veru Hertzsch og Sólveigar Erlu Benjamínsdóttur. En Halldór hélt heim og skrifaði Gerska æfintýrið, Stalín til dýrðar.

Halldór Laxness hafði farið ófögrum orðum um Hitler og fasismann fram að griðasáttmála Stalíns og Hitlers 23. ágúst 1939. Með samningnum var Pólland dæmt til að hverfa af landakortinu og skömmu síðar höfðu herir Stalíns og Hitlers skipt landinu á milli. sín. Rauði herinn hrakti 1,6 milljónir manna í Austur-Póllandi frá heimilum sínum, ýmist í útlegð eða fangabúðir í Síberíu. Í apríl 1940 voru 15.000 foringjar úr pólska hernum skotnir en um þriðjungur þeirra var myrtur á stað sem heitir Katyn og hvíla þeir þar í fjöldagröf. Um afstöðu Halldórs til þessarar ógæfu Pólverjanna segir Arnór: „Halldór Kiljan gat að sjálfsögðu á þessum tíma ekki vitað um fjöldamorðin í Katyn. En það var hægur vandinn að fá að vita hvað þarna var að gerast. Halldór Laxness hlýtur að hafa vitað, að þarna var verið að ganga milli bols og höfuðs á öllum þeim, sem Sovétvaldinu líkaði ekki við. Og það var honum „fagnaðarefni“. Varla er hægt að ímynda sér ömurlegri mannfyrirlitningu og mannhatur. Það er ljóst af ummælum Halldórs Kiljans um griðasáttmálann að hann meinti í raun og veru ekkert með öllum þeim stóryrðum sem hann hafði haft uppi um fasisma og nasisma. Hann lýsti því yfir, að um leið og griðasáttmálinn var undirritaður væri „baráttan gegn fasismanum ekki lengur einkunnarorð“. Þetta getur ekki þýtt annað en það, að engin ástæða sé til að ybba sig gegn Hitler og hugmyndafræði hans um leið og hann gerðist bandamaður Stalíns. Sérhver einlægur andfasisti hlyti að hafa haldið áfram að vera andfasisti, hvort sem Hitler gerði bandalag við annan einræðisherra eða ekki. En það átti ekki við um Halldór Kiljan. Um leið og Stalín og Hitler urðu vinir varð Hitler vinur Halldórs Kiljans.“

„Heimsfriðarráðið“ hét félag sem sagt var að væri rekið fyrir frjáls framlög friðelskandi einstaklinga. Engu að síður hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá öllum þessum friðardúfum eftir að að Sovétríkin liðu undir lok enda var apparatið fjármagnað af sovéska kommúnistaflokknum. Halldór Laxness beitti sér af svo miklum myndarskap fyrir samtökin að þau sæmdu hann heiðurspeningi fyrir bókmenntir. Meðal annarra sem fengu heiðurspening hjá Heimsfriðarráðinu voru Leoníd Bréznév, Fidel Castro, Nicolae Ceausescu, Oliver Tambo og Sam Nujoma.

Sá hluti Moskvulínunnar sem fjallar um Halldór Laxness og Sovétríkin er lygasögu líkastur enda segir hann frá manni sem laug linnulaust að fólki áratugum saman þótt hann hefði betri færi en flestir aðrir til að átta sig á því sem fram fór í Sovétríkjunum og betri aðstöðu en nokkur Íslendingur til að koma því á framfæri. Í lokakafla bókarinnar segir Arnór Hannibalsson: „Við Íslendingar verðum að gera mál okkar upp við kommúnismann. Við verðum að gera það ljóst og heyrumkunnugt, að þeir sem boðuðu trú á leiðtoga grimmdarfulls glæpafélags verða að standa ábyrgir orða sinna og gjörða, og að fyrir þau verði þeir dæmdir frammi fyrir sögunni og eilífðinni. Hvorki Þórbergur né Kiljan afneituðu kommúnismanum. Halldór Kiljan vissi mæta vel, hvernig fólk var tekið og troðið í Gúlagið í Sovét-Rússlandi. En hann þagði yfir því í þrjátíu ár. Hvorugur þeirra baðst fyrirgefningar á athæfi sínu.““

Við þessa frásögn Vefþjóðviljans er litlu að bæta nú öðru en því að á síðasta ári komu fram gögn um að Vera Hertzsch hefði látist í vinnubúðum Stalíns nokkrum árum eftir höndtöku sína.