Laugardagur 8. desember 2001

342. tbl. 5. árg.

Óvenjulegir atburðir eða menn sem skera sig úr að einhverju leyti eru gjarna vinsælt umfjöllunarefni bóka. Þetta er út af fyrir sig eðlilegt því það er erfiðara að skrifa krassandi bók um algert meðalmenni en einhvern sem hefur farið óvenjulegar leiðir eða verið óvenjulegur frá náttúrunnar hendi. Þá er ekki síður erfitt að skrifa áhugaverða bók um atburði sem eru í engu frábrugðnir daglegu lífi flestra manna. Bók sem fjallar um algeran meðaljón sem ekkert hendir er með öðrum orðum líkleg til að lenda neðarlega á sölulistum. Þetta á bæði við um skáldsögur og þær bækur sem unnar eru upp úr heimildum. Þá á þetta einnig um þær bækur sem lenda þarna á milli.

Ein þeirra er bókin Ríkir Íslendingar eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann. Það kann að hljóma einkennilega að halda því fram að þetta sé ekki hreint heimildarverk, en staðreyndin er þó sú að bók þar sem reynt er að leggja mat á ríkidæmi manna hlýtur alltaf að verða að svo stórum hluta ágiskun, að hæpið er að

Ríkir Íslendingar eftir Sigurð Má Jónsson
Ríkir Íslendingar eftir Sigurð Má Jónsson

tala um að heimildir séu fyrir öllu sem þar er. Og sem betur fer er það svo að slíka bók er ekki nema að hluta hægt að byggja á heimildum, því annars væri lítið orðið um einkalíf manna. En það má svo sem halda því fram, jafnvel þar sem nánast er giskað út í loftið á hversu margar milljónir eða milljarða einhver maður á, að heimildir séu fyrir hendi, aðeins mjög ónákvæmar heimildir. Aðalatriðið er þó að í bók sem þessari verður að taka tölum um ríkidæmi manna með miklum fyrirvara. Vandvirkni höfundar og viðleitni til að segja sem réttast frá kemur þessu lítið við, það er bara sem betur fer ekki hægt að skrifa nákvæma bók um það hversu ríkir menn eru.

Hvað sem því líður þá virðist höfundur þessarar bókar hafa lagt sig fram um að hafa staðreyndir réttar og margra ára reynsla af skrifum um viðskipti hefur vafalítið gert honum verkið auðveldara og bætt útkomuna. Og ágætlega unnin umfjöllun um ríka menn og ríkar fjölskyldur telst vafalaust nokkur fengur fyrir marga landsmenn, enda er töluverður áhugi á náunganum landlægur. Að öðrum kosti hefðu minningargreinar Morgunblaðsins til að mynda ekki þann sess meðal landsmanna sem raun ber vitni.

Bókin er sem sagt ágætlega unnin og að auki lipurlega skrifuð. En fyrir utan ágætan fróðleik um athafnasemi ríkra manna og ættir þeirra, er inngangur bókarinnar að ýmsu leyti áhugaverður. Þar lýsir höfundur meðal annars kostum þess að menn geti efnast, kostum einkaeignarréttarins og auðvaldsskipulagsins, kapítalismans. Á þessa kosti hefur Vefþjóðviljinn af og til bent, en Sigurður Már útskýrir þá prýðilega í bók sinni:

Nýjar kenningar hagfræðinga fela einmitt í sér að skortur á eignarrétti sé ein meginskýring þess hve illa þróunarlöndum gengur að ná tökum á hagkerfum sínum. Ef eignarrétturinn er ekki tryggður og skráður í veðmálabækur vantar eina af grunnforsendum frjálsra viðskipta. Fólk getur ekki selt eða veðsett eignir sínar og því verða markaðslögmál ekki virk. Fólk skortir hvata til að fjárfesta í framkvæmdum sem bæti líf þess vegna þess að það hefur enga tryggingu fyrir því að það njóti ávaxta þessara fjárfestinga. Erfitt er að gera bindandi samninga eða stunda viðskipti þar sem enginn lagagrunnur er til staðar. Niðurstaðan er sú kyrrstaða og jafnvel afturför sem víða ríkir í svokölluðum þróunarlöndum.