Föstudagur 7. desember 2001

341. tbl. 5. árg.

Á síðustu tveimur vikum hefur mikið verið rætt um sparnað hjá hinu opinbera. Eftir að fjárlaganefnd bætti á þriðja milljarða króna við útgjöld ríkissjóðs á milli umræða um fjárlagafrumvarpið var kominn halli á ríkissjóð. Því hefur verið gripið til þess ráðs að hækka skatta og þjónustugjöld. Fyrst er eytt og svo eru fundnar aðferðir til að auka tekjurnar. Ekki er heldur útilokað að ríkissjóður verði rekinn með halla á þessu ári, þ.e. árinu 2001. Hvort sem hallinn kemur fram á þessu ári eða því næsta er það óneitanlega nokkuð afrek að koma ríkissjóði í mínus eftir alla tekjuaukningu undanfarinna ára.

Fjármálaráðherrann segir í fjölmiðlum að staðan væri enn verri ef ekki hefði verið grynnkað á skuldum ríkissjóðs á undanförnum árum. Þetta er rétt að hluta en sýnir um leið að önnur útgjöld ríkissjóðs hafa gjörsamlega farið úr böndunum. Þrátt fyrir minni vaxtabyrði ríkissjóðs en áður og mikla tekjuaukningu ná menn vart endum saman í rekstrinum. Um leið og fjármálaráðherrann er að hæla sér af greiðslu skulda er hann um leið að vekja athygli á því að hann hefur tekið að sér að greiða ýmislegt sem hann hefði betur látið ógert. Eitt af því er tekjutengt og lengt fæðingarorlof sem er ein mesta varanlega aukning ríkisútgjalda fyrr og síðar. Á síðasta ári sagði fjármálaráðherra að ríkissjóður hefði engan kostnað af fæðingarorlofinu! Um daginn sagði hann hins vegar að hætt hefði verið við að spara hjá ríkissjóði með því að fresta þessu máli. Það skýrir auðvitað vandann í ríkisfjármálunum ef það að almennt þannig að fjármálaráðherrann neitar að líta á útgjöld sem útgjöld fyrr en halli er kominn á ríkissjóð.

Og svo er það stjórnarandstaðan. Í stað þess að sýna örlitla ábyrgð hefur stjórnarandstaðan lagt fram hugmyndir um „sparnað“ eins og að hætta við að hækka viðmiðunarmörk sérstaks tekjuskatts einstaklinga. Samfylkingin telur það með öðrum orðum „sparnað“ fyrir ríkissjóð að hætta við að lækka skatta á einstaklinga. Hvernig er þá hinn fullkomni sparnaður hjá ríkissjóði? Að hækka alla skatta í 100%?

Bæði stjórn og stjórnarandstaða virðast hafa sannfærst um að best fari á því að „spara“ með því að auka tekjurnar í stað þess að spara við sig í útgjöldum.