Helgarsprokið 9. desember 2001

343. tbl. 5. árg.

Sigurður Líndal varð sjötugur fyrr á þessu ári og af því tilefni hefur Hið íslenska bókmenntafélag gefið út bókina Líndælu. Bókin er safn á fimmta tug greina eftir menn sem flestir eru vel kunnir hér á landi. Greinarnar fjalla um ýmis þjóðfélagsmál og ættu allir sem einhvern áhuga hafa á slíku að finna sér drjúgt lesefni í bókinni. Hér verður engin tilraun gerð til að fjalla í heild um þetta verk, enda ekki mögulegt í stuttum pistli. Þess í stað verður gripið niður í tvær greinar. Fyrst í grein eftir Ragnar Árnason prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, en hún ber heitið Eignarréttur: Inntak, gæði og efnahagslegt gildi. Í lokin verður svo kíkt stuttlega í fróðlega og skemmtilega grein eftir Atla Harðarson heimspeking, Lýðræði.

„…það sé einkum tvennt sem geri mönnum kleift að framleiða mikið af gæðum, annað sé verkaskipting … og hitt sé uppsöfnun fjármagns. Og Ragnar færir fyrir því rök að séreignarréttur sé grundvallarforsenda bæði verkaskiptingar og uppsöfnunar fjármagns.“

Í grein sinni um eignarrétt byrjar Ragnar á að skilgreina hugtakið og bendir meðal annars á að „sáralítill munur“ sé á sameign allra og engum eignarrétti. Þetta hljómar saklaust og jafnvel þýðingarlítið, en vegna mikilvægis eignarréttarins er afar áríðandi að átta sig á að það hefur enga þýðingu að tala um að allir eigi eitthvað saman. Og Ragnar segir einmitt að á „síðari árum hafi hagfræðingum og öðrum félagsvísindamönnum orðið æ ljósara það lykilhlutverk, sem eignarréttarkerfi, þ.e. eignarrétturinn og fyrirkomulag hans, gegnir í samfélaginu“. Helstu niðurstöðurnar séu þær að eignarrétturinn sé einn helsti áhrifavaldur framleiðslu og hagvaxtar, og að því víðtækari og fullkomnari sem séreignarrétturinn sé, þeim mun meiri sé framleiðslan og hagkvæmnin að öðru jöfnu.

Eignarréttur er ekki eins einfalt fyrirbrigði og menn kynnu að ætla, heldur er hann settur saman úr nokkrum aðgreinanlegum réttindum. Veigamestu réttindin segir Ragnar að sé algengt að telja öryggi, einkagildi, varanleika og meðferðargildi, en til hins síðast nefnda telur hann framseljanleika, skiptanleika og hagnýtingu. Öryggið þarfnast varla útskýringar, því hver maður sér að ef eigandi er ekki öruggur um að geta haldið í eign sína, ef auðvelt er að hnupla henni svo dæmi sé tekið, er eignarrétturinn ekki mikils virði. Einkagildi felur í sér getu þess sem hefur eignarréttinn til að koma í veg fyrir að aðrir nýti sér eignina. Hér má nefna sem dæmi að til lítils væri að eiga bíl ef hver sem er gæti hvenær sem er tekið hann traustataki og farið ferða sinna á honum. Varanleikinn vísar til þess hversu lengi eignin er í eigu eigandans. Sé varanleikinn óviss eða skammur er eignin minna virði en ef varanleikinn er alger. Eins og Ragnar kemur inn á í grein sinni er helsti ókostur núverandi fiskveiðistjórnarkerfis einmitt að varanleikinn er ekki nægur. Kvótum er úthlutað ótímabundið en í raun er óvissa um varanleikann og sífelld pólitísk togstreita dregur úr gildi kerfisins. Að þessu leyti er kerfið á Nýja-Sjálandi fullkomnara eins og komið er inn á í grein Ragnars. Loks er það meðferðargildið, en það „vísar til réttar eiganda til að fara með eign sína á hvern þann hátt sem honum þóknast“. Eins og gefur að skilja er þetta mikilvægur eiginleiki, því eignarréttur er meira virði ef menn geta selt eignina, leigt hana, veðsett, skipt henni niður og svo framvegis. Þessi réttindi eru stundum takmörkuð og dregur það þá úr gildi eignarréttarins og rýrir eignina. Hér má taka sem dæmi að maður sem lendir í þeirri ógæfu að yfirvöld friða hús hans, til dæmis vegna aldurs þess, er skyndilega kominn í þá stöðu að geta ekki hagnýtt húsið með þeim hætti sem hann kýs helst, svo sem með því að stækka það eða gera það þægilegra íveru. Þó bjóða yfirvöld mönnum upp á þetta og það bótalaust.

Um gildi eignarréttarins í efnahagslífinu segir Ragnar að rannsóknir í hagvaxtarfræðum allt frá dögum Adams Smith bendi til að það sé einkum tvennt sem geri mönnum kleift að framleiða mikið af gæðum, annað sé verkaskipting, eða sérhæfing, og hitt sé uppsöfnun fjármagns. Og Ragnar færir fyrir því rök að séreignarréttur sé grundvallarforsenda bæði verkaskiptingar og uppsöfnunar fjármagns.

Röksemdafærslan er á þessa leið: Viðskipti eru nauðsynleg til að verkaskipting þrífist, því ef menn eiga ekki viðskipti hverjir við aðra verður hver maður að framleiða allt sem hann þarf. En viðskiptin krefjast eignarréttinda, því viðskipti eru ekkert annað en flutningur á eignarrétti frá einum til annars. Eignarréttur er því forsenda viðskipta, sem svo eru forsenda verkaskiptingar. Ekki er síður ljóst að eignarrétturinn er nauðsynleg forsenda uppsöfnunar fjármagns, því uppsöfnun þess krefst sparnaðar, þ.e. að dregið sé úr núverandi neyslu, og enginn myndi draga úr neyslu sinni og spara ef hann þættist ekki nokkuð viss um að njóta ávaxta sparnaðarins síðar. Eignarréttur er því nauðsynlegur til að menn spari og safni þannig upp fjármagni. Og þar sem sýnt hefur verið fram á að eignarréttur er forsenda bæði verkaskiptingar og uppsöfnunar fjármagns er hann jafnframt forsenda efnahagslegra framfara, eða hagvaxtar.

Ragnar leggur áherslu á að hér sé um grundvallarniðurstöðu að ræða sem afar mikilvægt sé að skilja til fullnustu, því „án eignarréttar hljóti mannlegt samfélag að vera sárafátækt og frumstætt í rauninni ekki ólíkt samfélögum ýmissa þróaðri dýrategunda nú á tímum.“

Þá skulum við í lokin víkja að grein Atla Harðarsonar, en í henni er fjallað um tvær mismunandi hugmyndir um lýðræði, annars vegar hugmyndir þeirra sem líta svo á að lýðræðið sé tæki til að setja niður deilur en líta ekki svo á að taka eigi ákvarðanir um alla hluti á vettvangi stjórnmálanna heldur vilja að ríkið haldi sig til hlés. Hins vegar hugmyndir þeirra sem vilja kjósa um flest og telja að stjórnmálamenn og pólitík eigi að vera allt í öllu. „Þótt röklegum undirstöðum hafi fyrir löngu verið kippt undan kenningum um almannavilja má enn heyra bergmál af þeim í máli manna sem boða „beint lýðræði“ og „þátttökulýðræði“ og líka meðal þeirra sem spyrja hvernig samfélag viljum við, og álíta að til sé svar og ætlast jafnvel til að það kalli á „pólitískar aðgerðir“,“ segir Atli.

Þá má geta þess til gamans að Atli virðist sammála þeim orðum sem standa í haus Vefþjóðviljans, því hann segir: „Kenningar [Rousseau] um þennan almannavilja voru að vísu æði þokukenndar og nú til dags mæla fáir þeim bót í fullri alvöru enda hæpið að tala um að hópar og þjóðir hafi vilja á sama hátt og einstaklingar.“