Helgarsprokið 18. nóvember 2001

322. tbl. 5. árg.

„Við höfum safnað í hlöðu.“ „Við erum reiðubúin.“ Þetta voru helstu skilaboð formanns Samfylkingarinnar við upphaf landsfundar flokksins í fyrradag. Á mæltu máli hljómar þetta svo: „Okkur hefur ekkert orðið ágengt en nú verðum við að fara að gera eitthvað.“ Mótsagnakennd, ruglingsleg og sundurlaus ræða formannsins var prýðilega til þess fallin að festa hann í sessi sem „mesta vindhana íslenskra stjórnmála“, svo vitnað sé til orða fyrrum aðstoðarmanns hans. Ræðan uppfyllti engan veginn þær vonir sem Samfylkingarmenn hljóta að hafa haft fyrirfram, þ.e. að formaðurinn skýrði stefnu flokksins svo einhver hefði grun um fyrir hvað Samfylkingin stendur. Í staðinn bauð formaðurinn flokksmönnum upp á eftirfarandi orð undir lok ræðunnar:
„Samfylkingin er sterkari en stjórnmálaumhverfið heldur. Við höfum sýnt það á siglingunni gegnum mótbyr sem við höfum stundum mætt að Samfylkingin hefur þá staðfestu sem þarf til að standa af sér storma og bylji. Hún er jafnvel sterkari en við sjálf gerum okkur grein fyrir.“

„Samfylkingin er sterkari en stjórnmálaumhverfið heldur. … Hún er jafnvel sterkari en við sjálf gerum okkur grein fyrir,“ segir Össur Skarphéðinsson, raunsær formaður Samfylkingarinnar.

Þannig er nú það. Samfylkingin er ekki aðeins sterkari en andstæðingar hennar halda heldur líka sterkari en flokksmenn sjálfir halda. Í henni eru sem sagt mikil dulin verðmæti sem enginn maður gerir sér grein fyrir. Já já.
Þegar svo er komið að formaður stjórnmálaflokks þarf að grípa til slíkra útskýringa hljóta flokksmenn að velta því fyrir sér að skipta annaðhvort um flokk eða formann, því dagdraumar um eigin glæsileik hafa ekki hingað til dugað flokkum til að ná fylgi meðal almennings.

Fyrir utan þessa furðulegu tilraun til að stappa stálinu í flokksmenn má segja að fátt bitastætt hafi verið í ræðu formannsins. Kunnuglegar klisjur sem litlu munu breyta um stöðu Samfylkingarinnar fengu það sem eftir var af ræðutímanum. Þar var til dæmis biðlað til stuðningsmanna vinstri grænna með því að hafna því algerlega að einkaaðilar komi að menntun eða lækningum landsmanna. Þar á ríkið eitt að fá að spreyta sig og greinilegt er að verja á stórauknum fjármunum til mennta- og heilbrigðiskerfisins, þó það sé ekki orðað með nákvæmlega þeim hætti.

Hinn nútímalegi formaður Samfylkingarinnar víkur máli sínu einnig að sköttum og stefna hans í skattamálum er eftirfarandi: „Samfylkingin vill réttlátt skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði en örvar um leið dugnað einstaklinga.“ Félagshyggjumenn, jafnaðarmenn og aðrir vinstri menn hafa hingað til verið þeirrar skoðunar að stighækkandi tekjuskattur „stuðli að jöfnuði“ og hafa þess vegna verið afar hrifnir af slíku fyrirkomulagi. Nú er að vísu hæpið að halda því fram að stighækkandi tekjuskattur stuðli að jöfnuði, en þó verður að ætla að skattheimta af því tagi sé það sem formaðurinn á við. Hann vill taka sem mest af þeim sem afla mikils eða eiga mikið, og láta þá fá sem eiga minna. Þetta finnst sumum göfugt markmið, en jafnvel þeim sem þannig eru þenkjandi verða að viðurkenna staðreyndir; skattkerfi af þessu tagi er ekki til þess fallið að „örva dugnað einstaklinga“. Þvert á móti.
Það er ekki bæði hægt að eta kökuna og geyma hana, en þetta virðist formaðurinn ekki skilja. Eða ekki vilja skilja. Hann vill að fólk trúi því að hægt sé að taka háar upphæðir af þeim sem gengur vel fjárhagslega án þess að það hafi nokkur áhrif á framleiðsluna í þjóðfélaginu.

Formaðurinn sýnir hetjulund sína ágætlega þegar hann færir brottkast í tal. Hann virðist ekkert sjá að því að einstaka óheiðarlegir menn fari um auðlindir sem hann telur vera auðlindir allrar þjóðarinnar af fullkomnu virðingarleysi og brjóti lög í gróðaskyni fyrir sjálfa sig. Nei, það er ekki hið alvarlega varðandi brottkastsumræðu undanfarna daga. Formaðurinn fer hins vegar mikinn gegn þeim stjórnvöldum sem vilja stöðva lögbrotin og segir: „hinn raunverulegi glæpur felst í gjafakvótanum“. Að áliti manns sem telur sig eiga erindi í ríkisstjórn eru glæpamenn ekki sekir þegar koma þarf höggi á pólitíska andstæðinga. Öll meðul eru leyfileg þegar vindhaninn reynir að gala á aukið fylgi.

Svo var það klassíkin í ræðu formannsins, en það er vitaskuld fjármál flokkanna. „Við segjum: Burt með pukrið,“ segir formaður Samfylkingarinnar, og bætir við að hann hafi „lagt til að í framtíðinni muni Samfylkingin sjálf opna sitt bókhald.“ Rétt að ítreka fyrir þá sem trúa ekki sínum eigin augum: Formaðurinn sem berst gegn pukrinu vill opna bókhald flokksins „í framtíðinni“. Hann spyr hvað aðrir hafi að fela, en hvað hefur hann að fela? Hvers vegna opnar hann bókhaldið ekki þegar í stað. Hvers vegna opnar hann ekki líka bókhald Alþýðuflokksins og biður fyrrverandi talsmann Samfylkingarinnar, Margréti Frímannsdóttur, um að skýra loks frá því hvers vegna skuldir Alþýðubandalagsins hlupu upp úr öllu valdi á skömmum tíma. Í því máli hafa innanbúðarmenn úr Alþýðubandalaginu vænt menn um það opinberlega að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hvernig væri að Samfylkingin og flokkar þeir sem að henni standa tækju til í eigin ranni áður en þeir fara að hafa áhyggjur af fjármálum þeirra sem engin ástæða hefur verið til að ætla að rogist um með óhreint mjöl?

„Við höfum safnað í hlöðu,“ sagði Össur Skarphéðinsson í upphafi landsfundarins. Hann átti víst við haughús.