Á landsfundi Samfylkingarinnar eru grafalvarleg mál til umræðu og mun miklu skipta fyrir landsmenn hversu farsællega mun takast að leiða þau til lykta. Mikilvægust þessara mála eru nafnamál Samfylkingarinnar, því eins og kunnugt er hefur nafn flokksins orðið til þess að hann hefur ekki náð nema á að giska þriðjungi til helmingi þess fylgis sem hann ætlaði sér í upphafi. Nafnabreytingatillögurnar eru ófáar, og er það til þess gert að flokksmenn geti valið flokknum nafn sem margfalda mun fylgi hans.
Fyrsta tillagan er frá þeim heiðursmönnum Guðmundi Árni Stefánssyni og Lúðvík Bergvinssyni og leggja þeir til að flokkurinn verði látinn heita Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands, og telja það muni skipta sköpum til að kjósendur geri sér grein fyrir að um jafnaðarmannaflokk er að ræða.
Næsta breytingatillaga, sem Jóhann Geirdal núverandi varaformaður Alþýðubandalagsins leggur fram til sátta, er að nafni flokksins verði breytt í Alþýðubandalagið. Til vara telur hann að til greina komi að flokkurinn verði látinn heita Alþýðubandalagið, flokkur jafnaðarmanna og kvennfrelsissinna. [Ritháttur er Jóhanns/Samfylkingarinnar.]
Loks er lagt til að nafn flokksins verði Samfylkingin – Jafnaðarflokkurinn, og er höfundur þessarar prýðilegu tillögu enginn annar en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi „mubla“ á Glaumbæ.
Allt eru þetta hinar ágætustu tillögur og bindur Vef-Þjóðviljinn miklar vonir við að með samþykkt þeirra, helst allra, muni flokkurinn hefja sig til þess vegs og virðingar sem honum ber í íslenskum stjórnmálum.
Áður en horfið er frá þessum brýnu lagabreytingatillögum er nauðsynlegt að minnast á eina enn, en hún er frá Hólmfríði Garðarsdóttur, „fyrir hönd hóps kvenna í Samfylkingunni“. Tillagan er á þá leið að í fyrstu grein verði felld út orðin „Samfylkingin er stjórnmálaflokkur“ og í stað þeirra komi „Samfylkingin – kvenfrelsis- Alþýðu- og Jafnaðarmannaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur“.
Mikil gæfa er það fyrir Samfylkinguna að í henni skuli rúmast allur sá félagsþroski sem fram kemur í ofangreindum tillögum til breytinga á lögum flokksins.