Nú er komin upp sú staða hér á landi að læknir nokkur hefur gefið sig fram og boðist til að lækna fólk. Þetta hefur vakið heilbrigðisráðherra óhug og er óhætt að segja að hann tekur hugmyndinni með öllum mögulegum fyrirvara og líst hreint ekki á hvernig heilbrigðismál eru að þróast. En nú er það svo að læknar hafa fyrr læknað fólk hér á landi, svo hver er vandinn? Jú, hann er sá að fyrrnefndur læknir hyggst ekki vera hluti af kerfi heilbrigðisráðherra, en hefur þess í stað í hyggju að láta sjúklinga sína greiða þjónustuna úr eigin vasa. Og þessu er Jón Kristjánsson sem sagt algerlega mótfallinn.
Fyrir látlausan Íslending sem ekki hefur alið langan aldur í framvarðasveit Framsóknarflokksins er auðvitað ekki hlaupið að því að sjá hvað er athugavert við að læknir lækni fólk og þiggi fyrir það greiðslu. Þessi starfsemi læknisins mun ekki draga úr möguleikum heilbrigðiskerfisins til að lækna annað fólk, frekar mætti halda því fram að því fleiri sem láta lækna sig á eigin kostnað, þeim mun fleirum sé hægt að veita aðstoð á kostnað annarra. En svona einfalt er þetta víst ekki, því Jón ráðherra segist vera „illa svikinn“ ef ekki verði fljótlega farið að krefja ríkið um þátttöku í greiðslunni til læknisins sem ekki hefur í hyggju að starfa á kostnað ríkisins.
Vitaskuld er hugsanlegt að Jóni muni berast um það beiðni að taka þátt í greiðslum til þessa læknis sem hér um ræðir, en getur það verið ástæða til að banna manninum að lækna fólk. Og þar með að banna fólki að leita sér lækninga með þessum hætti? Hvernig er hægt að halda því fram í fullri alvöru að fólk megi ekki leita sér lækninga nema hjá starfsmönnum Jóns vegna þess að annars kunni að vera að Jón fái beiðni um þátttöku í greiðslu? Er virkilega betra að fólk sé án aðstoðar læknis en að Jón þurfi að segja nei við styrktarbeiðninni? Varla.
Má ekki taka heilbrigðiskerfið til endurskoðunar og reyna að auka hlut einkaframtaksins þar í stað þess að gera allt sem hægt er til að standa í vegi fyrir jákvæðri þróun á þessu sviði? Bæði sjúklingar og skattgreiðendur hljóta að ætlast til að hagkvæmustu og skilvirkustu leiða verði ætíð leitað við að veita þjónustu á heilbrigðissviði. Þetta á bæði við ef haft er í huga að heilbrigðiskerfið er dýrasta kerfi landsins og að heilsan er nokkuð sem menn hafa þónokkrar mætur á.