Fimmtudagur 15. nóvember 2001

319. tbl. 5. árg.

Óskum eftir handritum að fréttum, leikstjóra og leikurum. Tökum upp ykkur að kostnaðarlausu.
Óskum eftir handritum að fréttum, leikstjóra og leikurum. Tökum upp ykkur að kostnaðarlausu.

Fréttastofa Ríkissjónvarpsins á nú í vök að verjast eftir að hafa sýnt sviðsetta og þar með falska frétt af brottkasti. Hinir hlutar ríkisfjölmiðilsins tóku virkan þátt í ruglinu og dægurmálaútvarp Rásar 2 var jafnvel með fréttaumfjöllun um að „fréttin“ væri væntanleg. Engu er líkara en að útvarpsleikhúsið hafi tekið að sér stjórn fréttastofa og fréttaþátta RÚV í liðinni viku. Í gær sá Bogi Ágústsson fréttastjóri sig knúinn til að lýsa því yfir í útsendingu að fréttastofa sjónvarpsins hefði ekki sviðsett fyrrnefnda frétt. Strangt til tekið kann það að vera rétt hjá Boga. Fréttastofan sá ekki um sviðsmynd, leik og gerð handrits. Það gerðu aðrir andstæðingar aflamarkskerfisins. Fréttastofan sá hins vegar um upptökuna og ber ábyrgð á því að hafa kynnt þennan leikaraskap sem fréttaefni. Í raun hefði það verið skárra fyrir fréttastofuna ef hún hefði einfaldlega leigt bát og Magnús Þór Hafsteinsson hefði sjálfur farið í sjógallann og kastað fiskinum fyrir borð. Þá sæti hún ekki upp með það í dag að hafa látið teyma sig á asnaeyrunum heldur aðeins að þar á bæ eru stunduð ómerkileg vinnubrögð.

Líklega hafa jafnmargir sjaldan fullyrt jafnmikið um jafnóljóst mál og úrslit bandarísku forsetakosninganna í fyrra. Nema ef vera skyldi um svonefnd gróðurhúsaáhrif. En þegar umhverfið er annars vegar er óvissa mikilvægt sönnunargagn, samkvæmt „varúðarreglu“ umhverfisverndarmanna. Eins og menn muna stóð repúblíkaninn George W. Bush uppi sem sigurvegari eftir fyrstu talningu í Flórída en þar voru leikar hnífjafnir. Hann stóð einnig uppi sem sigurvegari eftir endurtalningu. Og þegar demókratar höfðu látið handtelja atkvæði í völdum sýslum stóð Bush enn uppi sem sigurvegari. Þessi handtalning var raunar stöðvuð í miðjum klíðum af hæstarétti Bandaríkjanna. Réttbær yfirvöld í Flórída úrskurðuðu sigurinn Bush og sú varð einnig niðurstaðan þegar málið hafði farið upp allt dómskerfi landsins. Jafnvel mótframbjóðandi Bush í þessum kosningum Al Gore viðurkenndi ósigur sinn að lokum þótt hann hafi ekki þótt líklegur til þess að láta í minni pokann um tíma.

Ýmsir spáðu því að þessi óvissa, sem vissulega er til staðar þegar nokkur hundruð atkvæði af nokkrum milljónum skilja menn að í kosningum, myndi gera það að verkum að Bush yrði aldrei fullgildur forseti í hugum manna. En þetta var óþörf umhyggja fyrir Bush. Enginn forseti hefur þó notið viðlíka vinsælda og George W. Bush á þeim stutta tíma sem hann hefur gegnt embætti. Hið sama átti raunar við um John F. Kennedy sem varð forseti með afar sérstæðum hætti, svo ekki sé meira sagt. Ýmsir spáðu því einnig að þegar rannsókn hefði farið fram á kjörgögnum kæmi í ljós að Gore hefði í raun fengið fleiri atkvæði en Bush í Flórída. Nokkrar rannsóknir hafa farið fram en engin þeirra hnekkir þeirri niðurstöðu sem varð ofan á.

Í vikunni lauk umfangsmestu rannsókninni til þessa á vegum átta fjölmiðlafyrirtækja en hún stóð í níu mánuði og kostaði um 1 milljón Bandaríkjadala. Skoðaðir voru 175.010 kjörseðlar frá Flórída sem talningarvélar höfðu hafnað. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að ef hæstiréttur Bandaríkjanna hefði leyft endurtalningu hefði Bush ekki unnið með 537 atkvæðum heldur 493. Rannsóknin leiðir einnig í ljós að ef handtalning hefði aðeins farið fram í þeim sýslum sem demókratar óskuðu upphaflega eftir – þ.e. fjórum sýslum þar sem þeir höfðu mikið fylgi – hefði Bush engu að síður unnið með 225 atkvæða mun.

En rannsóknin staðfestir einnig, sem var svo sem augljóst að kosningum loknum, að margt má betur fara við kosningar í Flórída. Kjörseðlar voru víða ruglingslegir og margir gerðu ógilt af þeim sökum. Sumir gátu einfaldlega ekki lesið á seðlana eins og maðurinn í Bay sýslu sem í fjærsýni og bjartsýni sinni ritaði á kjörseðilinn „Ég gleymdi gleraugunum heima og get ekki lesið á seðilinn. Vinsamlegast gefið Bush atkvæði mitt.“