Miðvikudagur 31. október 2001

304. tbl. 5. árg.

Í leiðara Morgunblaðsins á laugardaginn var því fagnað sem „stórkostlegri breytingu“ og „einkar ánægjulegum árangri“ að 85% nýbakaðra feðra þiggja nú nýja tegund velferðarbóta frá ríkinu sem nefnast fæðingarorlofsbætur og Tryggingastofnun ríkisins greiðir út. Nú halda menn ef til vill að þessir menn sem Morgunblaðið fagnar svo mjög að séu komnir á bætur séu atvinnulausir, öryrkjar, sjúklingar, lágtekjumenn eða með erfiðar aðstæður á heimili vegna veikinda í fjölskyldu. Nei það er reyndar ekki þannig. Flestir þessara nýbökuðu bótaþega eru menn á besta aldri, í fullri vinnu og gengur allt í haginn. Þeir hafa jafnvel eignast barn nýlega sem mun einstök gæfa að mati flestra sem það hafa reynt.

Og það er ekki nóg með það. Því hærri tekjur sem menn úr þessum hópi hafa í sinni vinnu því hærri bætur fá þeir. Vefþjóðviljinn leyfir sér að endurtaka þetta: Há laun gefa háar bætur, lág laun lágar bætur. Foreldrið með 400 þúsund krónur í laun fær 320 þúsund á mánuði í velferðarstyrk frá ríkinu þegar það fer í orlofið. Foreldrið með 140 þúsund fær 112 þúsund á mánuði. Ekki er þó vitað til þess að börn efnaðra foreldra séu þyngri á fóðrum en börn láglaunamanna.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins slær því föstu að þessi mikla fjölgun bótaþega hjá Tryggingastofnun ríkisins hafi leitt til þess að bótaþegarnir taki nú meiri þátt í umönnun barna sinna. Ef til vill er það svo. Ef til vill ekki. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins telur sig vita það fyrir víst hvað fram fór á nokkur þúsund heimilum ungabarna og foreldra þeirra á þessu ári. En er útilokað að einn og einn bótaþegi hafi bara verið í vinnunni á sama tíma og hann fékk velferðartékkann frá Tryggingastofnun? Ekki síst nú þegar alls staðar vantar fólk til vinnu. Er jafnvel hugsanlegt að einhverjir hafi skotist í vinnuna í svona í klukkutíma á dag og á einn og einn fund? Hvað með þá sem hvort eð er vinna heima við? Hver er hin „stórkostlega breyting“ og „einkar ánægjulegi árangur“ gagnvart þeim? Með því að vinna í fæðingarorlofinu eru menn auðvitað að svindla á kerfinu en kerfið virðist beinlínis hafa verið hannað með það í huga að gefa sem besta möguleika á svikum.

Hugmyndir leiðarahöfundar Morgunblaðsins um hlutverk velferðarkerfisins eru ekki lengur byggðar á umhyggju fyrir þeim sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Í hugum leiðarahöfundarins á laugardaginn er velferðarkerfið orðið að verkfæri fyrir þjóðfélagsverkfræðing sem fengið hefur það verkefni að hanna nýtt hegðunarmót fyrir einstaklinga og fjölskyldur.