Naflaskoðun Samfylkingarinnar virðist engan enda ætla að taka. Nú hafa einhverjir þingmenn og aðrir forsprakkar fylkingarinnar sannfært sig um að óvinsældirnar séu ekki því um að kenna að flokkurinn hafi enga stefnu og engan tilgang, nei, vandinn er sá að flokkurinn hefur ekkert nafn. Um þetta sameinuðust þeir nafnarnir Guðmundur Oddsson og Stefánsson í sjónvarpsviðtali í gærkvöld og töldu einsýnt að með því að hnýta orðunum „jafnaðarmannaflokkur Íslands“ aftan við nafnið „Samfylkingin“ færi allt að ganga betur. Í dag vissi enginn fyrir hvað flokkurinn stæði og hver stefna hans væri því nafnið segði ekkert, en með því að segja í nafninu að flokkurinn sé jafnaðarmannaflokkur, þá muni fólk átta sig. Þeir félagar hefðu svo sem getað náð sama árangri með því að segja bara berum orðum að kjósendur séu almennt með fremur takmarkaða heilastarfsemi og að kjósendum sé þess vegna ekki enn ljóst að í Samfylkingunni er fólk sem telur sig jafnaðarmenn og kallar sig jafnaðarmenn. En hvers vegna að tala skýrt þegar hægt er að tala í kringum hlutina og vera með dularfullar kenningar í sjónvarpi?
Útflutningsráð er ríkisstofnun sem rekin er fyrir skattfé eins og aðrar slíkar. Hún selur almenningi vitaskuld ekki þjónustu sína, en virðist þó telja sig þurfa að réttlæta tilveru sína með afdráttarlausum hætti. Hvort skýringin er sú að starfsmenn stofnunarinnar telja ekki augljóst að árangur hafi orðið af störfum þeirra skal ósagt látið, en þeir tóku þann kost á dögunum að kynna sig fyrir landsmönnum. Þetta gerðu þeir með því að dreifa Útherja, sem er fréttablað Útflutningsráðs, til allra áskrifenda Morgunblaðsins í síðustu viku. Í blaðinu voru á að giska óteljandi myndir af starfsfólki ráðsins skælbrosandi til skattgreiðenda sem kostuðu útgáfu ritsins. Ástæðan fyrir þessari útgáfu á myndasögunni um starfsfólk Útflutningsráðs var sögð 15 ára afmæli ráðsins, og mega landsmenn búast við mörgum auglýsingapésum frá ríkisstofnunum ef þær taka upp á að minnast allra álíka stórra afmæla með svipuðum hætti.