Í umhverfisþættinum Spíral í barnatíma Ríkissjónvarpsins í gær var börnunum kennt að íslenskar lopapeysur séu umhverfisvænar en útlendir bómullarbolir afar skaðlegir umhverfinu, beinlínis baneitraðir þegar allt er talið. Þessi kenning var studd með því að ullin í lopapeysuna kemur af íslensku fjallalambi en rækta þarf bómullina í útlenda bolinn með tilheyrandi áburði og ýmsum tegundum skordýraeiturs. Að auki þarf að flytja bolinn til landsins en eins og börnunum hefur verið kennt í fyrri þáttum Spírals er allur innflutningur afar skaðlegur umhverfinu þar sem það kostar orku að flytja vörur til landsins. Að sjálfsögðu var ekki spillt fyrir þessari kenningu með því að segja börnunum frá því hvernig rollan, sem hin umhverfisvæna ull kemur af, hefur leikið gróður landsins. Einnig gleymdist alveg að upplýsa börnin um hvernig mýrar hafa verið ræstar fram til að heyja ofan í skepnurnar og griðland fugla þar með eyðilagt. Ekki var heldur minnst á að íslenskir sauðfjárbændur nota innflutt tæki, áburð og jafnvel innflutta orkugjafa við hina dásamlegu framleiðslu sína.
En það eru ekki aðeins góðar kenningar í Spíral. Í þættinum eru reglulega kynnt heilræði. Í þættinum í gær var til dæmis sett upp skilti sem á stóð að „Íslendingar spöruðu 9 GWst (lýsing um 2000 heimila) ef þeir nýttu betur þvotta sína og minnkuðu þvott per mann úr 80 í 50 þvotta á ári.“ Þetta hefur sjálfsagt komið ýmsum á óvart. Ekki síst þeim sem vissu ekki fyrir að þvottavélar ganga fyrir rafmagni. Ætli landsmenn hafi almennt áttað sig á því að það má spara rafmagn með því að nota minna af því? Heilræði sem þessi liggja ekki á lausu. Í þættinum var einnig lagt mjög hart að mönnum að kaupa ekki óþarflega mikið af fötum. Það fer enda mjög vel saman að eiga aðeins eitt sett af alklæðnaði og þvo sjaldan.