Helgarsprokið 28. október 2001

301. tbl. 5. árg.

Hversu dýr verður málstaður smáþjóðar?
Hversu dýr verður málstaður smáþjóðar?

Síðastliðinn föstudag náði Sveinn Einarsson þeim stórkostlega árangri að vera kjörinn í stjórnarnefnd UNESCO fyrir Ísland. Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu, sem var aðalstyrktaraðili Sveins í kosningabaráttunni, segir að árangur Íslands í kjörinu sé mjög góður en Sveinn var þriðji í sínum riðli á eftir Þjóðverjum og Tyrkjum og í fjórða sæti yfir heildina en Senegalar voru sigursælastir að þessu sinni. Með þessum sigri gefst Sveini kostur á að jafna met Andra Ísakssonar sem átt sæti í stjórn nefndarinnar frá 1983-1987 og sótti fundi hennar milli þess að hann lagði stund á Keflavíkurgöngur, en þær eru hentug tómstundaiðja þeim sem í nefndinni sitja þar eð störfin kalla á tíðar utanferðir.

Á heimasíðu sinni veitir Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, almenningi innsýn í starfsemi þeirrar miklu kosningamaskínu sem stóð að baki kjöri Sveins og kemur þar fram m.a. undanfarið ár hafi mikil vinna farið í að kynna frambjóðandann auk þess sem Sveinn hefur kynnt sig nokkuð sjálfur en hann hefur víst fram að þessu verið formaður einhvers sem kallað er íslenska UNESCO nefndin. Auk þessa mun drjúgur hluti vinnutíma starfsmanna sendiráðs Íslands í Frakklandi hafa verið í þágu baráttunnar. Björn segir svo orðrétt: „Hefur verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að kynnast því, hvernig best er staðið að því að halda málstað smáþjóðar fram í slíkri baráttu.“

Nú er vandséð hver málstaður smáþjóðar er í slíkri baráttu sem Björn lýsir, eða hvaða málstað það fólk hefur yfirleitt að verja sem sækist eftir sæti í stjórn UNESCO. Óhætt er að fullyrða að engin einstök stofnun Sþ (Sameinuðu þjóðanna) hefur sætt jafnmikilli gagnrýni og UNESCO. Árið 1984 sáu Bandaríkjamenn sig knúna til að segja sig úr UNESCO en þeir höfðu þá frá 1946 lagt stofnuninni til allt frá nær helmingi til fjórðungs þess fjármagns sem hún hafði úr að spila. Og hvernig stofnunin spilaði úr þessum fjármunum var m.a. ástæða þess að Bandaríkjamenn hættu þátttöku.

Eitt aðaleinkenni stofnunarinnar er bruðl með það fé sem aðildarlöndin greiða en félagsgjaldið er hlutfall af þjóðartekjum viðkomandi aðildarríkis. Á áttunda og níunda áratugnum var útþensla stofnunarinnar meiri en nokkurrar annarrar innan vébanda Sþ. Eitt lítið dæmi um hversu viðurkennt og sjálfsagt bruðlið þótti er að einn framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Amadou-Mahtar M’Bow, lét útbúa glæsiíbúð fyrir sig á efstu hæð höfuðstöðvanna í París. En stofnunin einbeitti sér líka að því að vinna að einhvers konar alheimstekjujöfnun sem aðallega fólst í því að fé átti að færa frá markaðssamfélögum til einræðisherra í ráðstjórnarríkjum, undir yfirskini þróunarhjálpar. Hugmyndinni um alheimsskatt sem öll ríki ættu að greiða og Sþ eða UNESCO að útdeila var oftar en ekki hreyft á vettvangi stofnunarinnar með skírskotun til hinnar marxísk-díalektísku hugmyndar um skiptingu heimsins í fyrsta og þriðjaheimsríki.

Ekki síður alvarleg var sú stefna stofnunarinnar að vinna sérstaklega gegn „vestrænum menningaráhrifum“. Má segja að þetta hafi um margra ára skeið, leynt og ljóst, verið aðalverkefni stofnunarinnar enda hefur það ætíð verið hverskyns ráðstjórnarríkjum kappsmál að eiga fulltrúa í stjórn hennar. Undir merkjum NIIO (New International Information Order) voru lagðar fram margvíslegar tillögur sem lutu að því að leggja kvaðir á blaðamenn um að halda á lofti markmiðum stjórnvalda.auk ýmissa annarra hafta á frjálsa fjölmiðlun. Snemma á áttunda áratugnum hóf stofnunin líka að beita sér fyrir því að óheimilt væri að útvarpa efni um gervihnetti til fólks að stjórnvöldum forspurðum. Þetta kann að hljóma sérkennilega en hafa ber í huga að stofnuninni var að mestu stýrt af fulltrúum ríkja sem sjálf höfðu sett miklar skorður við tjáningarfrelsi. Það ætti því ekki að koma á óvart að einn höfuðtilgangur stofnunarinnar hefur í raun verið að koma í veg fyrir að fólk um heim allan horfi á bandarískt sjónvarpsefni og sjái bandarískar kvikmyndir. Ennfremur beitti stofnunin sér fyrir því, með töluverðum árangri, að svokölluðum „viðhorfum þriðjaheimsríkja“ yrði komið að í kennslubókum á vesturlöndum eins og eflaust margir lesenda kannast við úr samfélagsfræðitímum grunnskólans eða sögu-og félagsfræðitímum framhaldsskóla.

Bandaríkjamenn höfðu afar góðan málstað að verja þegar þeir sögðu sig úr UNESCO árið 1984. Með úrsögn sinni voru þeir að gagnrýna þá gengdarlausu sóun almannafjár sem átti sér stað innan veggja stofnunarinnar og jafnframt verkefni og markmið stofnunarinnar sem voru nær öll andstæð lýðræðis-og markaðssamfélögum heimsins. Þeir hafa ekki ennþá séð ástæðu til að gerast aðilar að stofnuninni á ný.

Það kann vel að vera að menntamálaráðherra viti hver sá málstaður smáþjóðar er sem hann nefnir í pistli sínum og hefur varið svo miklu fé til að berjast fyrir á vettvangi UNESCO, en er ekki kominn tími til að ráðherrann kynni sér málstað skattgreiðenda?