Laugardagur 27. október 2001

300. tbl. 5. árg.

„Þetta kemur ekki til greina“, sagði Jón Ásgeir Sigurðsson formaður starfsmannafélags Ríkisútvarpsins í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi um fyrirhugaðan sparnað hjá Ríkisútvarpinu á næsta ári. Það stefnir í 300 til 400 milljóna króna rekstrarhalla hjá Ríkisútvarpinu að óbreyttu og stjórnendur þess hafa lagt fram tillögur um hvernig megi spara innan stofnunarinnar. Þeir eru í raun að gera það sama og svo margir aðrir stjórnendur fyrirtækja um þessar mundir, bregðast við minnkandi tekjum og laga reksturinn að breyttum aðstæðum. „Þetta kemur ekki til greina“ að mati Jóns Ásgeirs Sigurðssonar.

Jón Ásgeir Sigurðsson telur það „ekki koma til greina“ að eyða ekki fé sem ekki er til. Nei, nei, Ríkisútvarpið á ekki að leita leiða til að spara eins og aðrir um þessar mundir. Ríkisútvarpið á að vera hafið yfir svoleiðis. Ríkisútvarpið á að halda áfram að belgja sig út eins og það hefur gert á síðustu árum og halda áfram eyða því sem ekki er til og senda svo skattgreiðendum reikninginn. Sparnaður og aðhald á ekki að trufla rekstur Ríkisútvarpsins. Þar á bæ eru menn of fínir með sig til að taka til í rekstrinum. Það „kemur ekki til greina“ að mati formanns starfsmannafélagsins.

Og eins og svo oft áður þegar málefni Ríkisútvarpsins eru annars vegar munu fréttatímar og gáfumannakjaftaþættirnir verða lagðir undir umfjöllun um þennan mikla vanda og „aðför“ að Ríkisútvarpinu.