Nú þegar Samfylkingunni hefur mistekist að höfða til hinnar svonefndu breiðu miðju í íslenskum stjórnmálum er ekki við öðru að búast en að flokkurinn leiti á ný mið, ekki síst ef flokkurinn ætlar að tryggja sig í sessi sem helsti hentistefnuflokkur landsins. Það liggur auðvitað beint við þegar miðjumiðin hafa brugðist að leita til vinstri en samkvæmt skoðanakönnunum hefur fiskast nokkuð vel á vinstri hjara veraldar að undanförnu.
Því verður ekki neitað að jafnaðarmenn í Hafnarfirði hafa lengi verið í fylkingarbrjósti íslenskra jafnaðarmanna. Samfylkingin í Hafnarfirði efndi til skoðanakönnunar á dögunum um framboðslista flokksins fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Til marks um hinar nýju áherslur þótti sjálfsagt að félagsmaður úr Alþýðubandalaginu leiddi listann og Lúðvík Geirsson því valinn til forystu. Samfylkingin hefur lagt áherslu á það undanfarið ár, eða allt frá því vinstrigrænir fóru að mjakast upp á við í skoðanakönnunum, að menn úr Alþýðubandalaginu gegni öllum helstu forystuembættum í flokknum í landsmálum. Nú er komið að sveitarstjórnum. Og þar verður ekkert hálfkák eins og landsmálunum, enga flöktandi flokkaflækinga eins og formanninn, heldur alvöru vinstrimenn sem hafa aldrei kastað trúnni á heimskommúnismann.
Því var Lúðvík Geirsson hið eðlilega val í Firðinum. Í viðtali við Vikublaðið 20. maí árið 1997 var Lúðvík spurður að því á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Svarið var einfalt og klárt: Lenín. Já, það er ekkert gefið eftir þegar Lúðvík Geirsson er annars vegar og nú hefur það skilað honum í forystusveit Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Enda bætti hann við umsögn frá eigin brjósti um hinn geðþekka fjöldamorðingja Lenín: „hann var traustur foringi“.