Þriðjudagur 16. október 2001

289. tbl. 5. árg.

The Japan Times sagði frá því á sunnudag að Japan og Evrópusambandið hefðu ákveðið að standa gegn auknu frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir í nýrri umræðulotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, sem hefjast á í næsta mánuði. Japan og ríki Evrópusambandsins fylgja harðri verndarstefnu í landbúnaðarmálum, niðurgreiða eigin framleiðslu og leggja tolla á innflutning og hafa jafnan staðið í vegi fyrir auknum milliríkjaviðskiptum með þessar vörur. Afleiðing stefnunnar er annars vegar sú að íbúar Japan og Evrópusambandsríkjanna þurfa að sætta sig við dýrar landbúnaðarafurðir og hins vegar að íbúar þeirra landa sem gjarna vilja flytja út landbúnaðarafurðir verða af tekjum. Þetta er því stefna sem gerir alla fátækari.

Bandaríkin hafa barist gegn þessari verndarstefnu en lítið orðið ágengt. En það er ekki aðeins ríkasta ríki heims sem telur hag sínum best borgið verði frelsi leyft að ríkja í viðskiptum með landbúnaðarvörur, fátækustu ríki heims telja sig einnig hafa hagsmuni af frelsi á þessu sviði. Ástæðan er vitaskuld sú að landbúnaður er gjarna helsti atvinnuvegur fátækustu ríkja heims og helsti möguleiki þeirra til að efnast er að fá að selja ríkum ríkjum afurðirnar. En Evrópusambandið er þeirrar skoðunar að heppilegra sé að afhenda þessum ríkjum styrki, sem hafa í besta falli skilað litlum árangri, en leyfa þeim að bjarga sér sjálfum með frjálsum viðskiptum.

Fyrst minnst er á Evrópusambandið er ekki úr vegi að minnast á fimm breska stórglæpamenn sem nú eru á leið fyrir dómstóla vegna tilskipunar sambandsins. Evrópusambandinu líkar nefnilega ekki að sumir séu öðruvísi en aðrir og þess vegna verða allir að nota sömu mælieiningar. Gallinn er bara sá að þessir fimm grænmetis- og fiskkaupmenn og viðskiptavinir þeirra vilja heldur eiga viðskipti sína í milli í hefðbundnum enskum mælieiningum en frönskum metrum Evrópusambandsins. Nú er metrakerfið svo sem ágætt, eins og Íslendingar þekkja, og dugar vel til síns brúks, en Englendingar eru margir þeirrar skoðunar að þeirra kerfi sé engu síðra. Þeir eru vanir því kerfi og vilja halda sig við það. Ef til vill er það bara af sérvisku eða þrjósku, en svo má líka vel vera að það borgi sig bara ekki að breyta öllum mælitækjum og læra á nýjar einingar. Slíkar breytingar kosta peninga og það er alveg óvíst að þeir peningar skili sér. En hvernig sem því nú víkur við, þá er alveg óskiljanlegt að Evrópusambandið finni sig knúið til að skipta sér af því hvort Bretar kaupa fisk og kartöflur í pundum eða kílóum. Félagsskapur sem sýnir tilburði til forsjárhyggju á því stigi er í meira lagi varhugaverður.