Mánudagur 15. október 2001

288. tbl. 5. árg.

„Ég ætla að setja mér það markmið að fara að minnsta kosti tvisvar í viku í vinnuna með strætó. Ég þarf reyndar stundum að fara á fundi út í bæ og svona og stundum oft á dag og þá segir það sig sjálft að þá þarf ég stundum að vera á bílnum en allavega tvisvar í viku og ég er meira að segja aðeins byrjaður.“ Þetta er svar framkvæmdastjóra Strætó bs. við því hvort hann noti þjónustu fyrirtækisins sem hann stýrir þegar hann var spurður að því í „umhverfisþættinum“ Spíral í Ríkissjónvarpinu í gær. Fyrr í viðtalinu hafði framkvæmdastjórinn verið spurður að því hvers vegna fólk ætti að nota strætó. Fyrir því eru nokkrar ástæður að mati framkvæmdastjórans. Í fyrsta lagi telur hann það „mjög umhverfisvænt“, í öðru lagi „þægilegt“ og í þriðja lagi „hagkvæmt“ og í fjórða lagi þurfi maður ekki að keyra sjálfur.

Hljómar vel ekki satt? Að vísu ekki nógu vel til að framkvæmdastjórinn trúi því sjálfur og noti vagnana, en nokkuð vel engu að síður fyrir þá sem þekkja ekki til. Reyndar er allt sem framkvæmdastjóri Strætó bs. sagði um kosti þess að nota vagnana algjört bs. Að því undanskildu að menn þurfa ekki að aka sjálfir. Strætó er ekki umhverfisvænn. Strætisvagnafarþeginn gefur frá sér meiri útblástur en farþegi einkabíl í dag. Þessu veldur hin lélega nýting stóru gulu vagnanna. Strætó er ekki þægilegur í samburði við aðra kosti. Ef marka má reynsluna þykir fólki greinilega þægilegra að nota bíl en strætó þótt strætisvagninn sé niðurgreiddur af skattfé en bíleigendur séu skattpíndir meira en nokkur annar hópur. Og svo er það hagkvæmnin. Skattgreiðendur í Reykjavík koma út í 600 milljóna króna mínus gagnvart strætó. Það er því ekkert hagkvæmt við rekstur strætisvagnanna.

Í þættinum Spíral í gær fengu tveir aðilar afar jákvæða umfjöllun. Annars vegar Strætó bs og hins vegar umhverfisráðherra. Meðal styrktaraðila þáttarins eru Umhverfisráðuneytið og svo Reykjavíkurborg sem er stærsti eigandi Strætó bs.