Já, menningarliðið, það er engu líkt. Eins og lesendur vita þá hefur Vefþjóðviljinn af og til vikið að þeim hópi sem berst hvað harðast fyrir opinberu „tónlistarhúsi“ fyrir milljarða króna, en það er ekki eins og það sé það eina sem þarf að gera fyrir íslenska menningarmenn. Nú var til dæmis að koma sérstök ályktun frá mönnum sem nefna sig Leikskáldafélag Íslands og þar standa meðal annars þessi hógværu orð:
„Leikskáldafélag Íslands lýsir furðu og vandlætingu á því að nú sé hvergi hægt að leita eftir styrkjum til handritsgerðar, þróunar eða framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni og krefst þess að úr verði bætt nú þegar. … Það er mikið fagnaðarefni að styrkir til allrar annarrar kvikmyndagerðar hafa verið stórauknir, en um leið ekkert annað en hneyksli að að jafn mikilvægum þætti í menningarlegri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og leiknu íslensku sjónvarpsefni skuli nú hvergi ætlaður fjárhagslegur stuðningur.“ |
Furða. Vandlæting. Hneyksli. Það er ekkert minna. En Vefþjóðviljanum er ánægja að því að leiðrétta þessa kurteislegu ályktun. Það er nefnilega mjög víða hægt að leita eftir styrkjum til handritsgerðar, þróunar og framleiðslu leikins íslensks sjónvarpsefnis. Á Íslandi starfar gríðarlegur fjöldi fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka og þar að auki er mikill meirihluti landsmanna enn fjár síns ráðandi og til allra þessara aðila getur hver sem er leitað og beðið um styrk til starfsemi sinnar. En að vísu var það kannski ekki það sem leikskáldafélagið átti við.
Fyrirtækin, félögin og einstaklingarnir eru nefnilega öll að ráðstafa eigin fé. Leikskáldafélag Íslands er líklega bálreitt vegna þess að því er ekki tryggður aðgangur að mönnum sem ráðstafa annarra manna fé. Félagið þykist líklega vita að fái fólk, félög og fyrirtæki að ráðstafa eigin fé sjálf, að þá muni þessir aðilar ekki veita „nægilega miklu fé“ til að styrkja þá menn sem sitja og semja sjónvarpshandrit. Leikskáldafélag Íslands vill miklu heldur að peningarnir verði teknir með valdi – með skattheimtu – af þessu fólki og færðir félagsmönnum í Leikskáldafélagi Íslands. Og félagið lýsir furðu og vandlætingu á því að það sé ekki gert.