Föstudagur 28. september 2001

271. tbl. 5. árg.

Eftir fund varnarmálaráðherra NATO í Brussel í fyrradag upplýsti Halldór Ásgrímsson, einn fundarmanna, að á fundinum hefði komið fram að hryðjuverkamenn fjármögnuðu starfsemi sína meðal annars með framleiðslu og sölu ólöglegra fíkniefna. Þetta er svo sem í sjálfu sér ekkert nýtt að misyndismenn fari þessa leið. Á meðan áfengi var bannvara á Vesturlöndum var áfengisframleiðsla og sala undirstaða skipulagðrar glæpastarfsemi. Allir vita að í dag má rekja veldi ýmissa glæpasamtaka til þess óeðlilega hagnaðar sem er af fíkniefnasölu. Og þessi hagnaður er óeðlilegur vegna þess að fíkniefnin eru bönnuð. Bannið eykur áhættuna við söluna og knýr verðið upp úr öllu valdi. Það er hvorki dýrara né flóknara að rækta og vinna helstu fíkniefnin en kaffi. Hefur einhver heyrt að glæpahringir lifi á kaffibaunum? Líklega ekki. En það mætti ná fram sömu áhrifum með því að banna kaffi eða áfengi, súkkulaði eða tóbak og nást með fíkniefnabanninu. Þá fengi undirheimalýðurinn og hryðjuverkasamtökin í raun lögverndað einkaleyfi á sölu þessara efna og gæti nýtt hinn óeðlilega hagnað til að fjármagna aðra glæpastarfsemi sína og fremja hryðjuverk.

Listinn yfir slæmar afleiðingar fíkniefnabannsins er langur. Það er ekki nóg með að glæpalýðurinn hafi einkarétt á hagnaðinum af sölunni. Fíklar leiðast út í vændi, innbrot og rán til að fjármagna óeðlilega dýra neysluna. Þar sem ekkert fórnarlamb er til staðar þegar fíkniefnasali er tekinn fyrir sölu eða smygl eða neytandi fyrir að vera með efnið á sér er hætta á því að lögreglu og öðrum yfirvöldum sé mútað. Ekkert neytendaeftirlit er til staðar og margir örkumlast og deyja vegna óhreinna efna. Vonlítill eltingarleikur lögreglu við sölumenn og neytendur hefur kallað á sífellt víðtækari heimildir til símhleranna og annars átroðnings á friðhelgi einkalífsins. Nú bætist við að menn sem hafa það eitt á dagskránni að drepa sem flesta njóta ávaxtanna af fíkniefnabanninu.

En margir mega samt ekki heyra það nefnt að slaka á fíkniefnabanninu, hversu oft sem þeim er sagt frá vandanum sem það skapar. Það væri víst svo mikil „uppgjöf“. Leiðinlegt að slíkir menn hafi einsett sér að gefast aldrei upp fyrir staðreyndum.