Föstudagur 21. september 2001

264. tbl. 5. árg.

Stundum ræða landsmenn sín í milli hvað í ósköpunum allir starfsmenn opinberra stofnana hafa fyrir stafni allan liðlangan daginn, því ekki vilja menn trúa því að setið sé með tærnar uppi á skrifborði lunga dagsins. Vitað er af fjölda húsa í miðbænum sem troðfull eru af starfsmönnum ráðuneyta og öðrum húsum opinberra stofnanna hér og þar um bæinn sem enginn áttar sig á að þörf sé fyrir. En það er engin ástæða til að örvænta, starfsmenn hins opinbera hafa nóg fyrir stafni og vinna mörg afar brýn verk sem óhugsandi væri að lægju óunnin. Dæmi um þessi áríðandi verk eru hinar ýmsu reglur sem setja þarf til að landsmenn fari sér ekki að voða í barnaskap sínum. Þessi börn sem landsmenn eru þarf hið opinbera að meðhöndla með viðeigandi hætti og til þess var einmitt sett reglugerð um persónuhlífar til einkanota í ráðuneyti iðnaðar- og viðskipta. Í hinni ómissandi reglugerð má meðal annars lesa í 5. grein:

Eingöngu er heimilt að setja á markað persónuhlífar til einkanota sem vernda eiga heilsu og tryggja öryggi notenda, án þess að stofna heilsu eða öryggi annarra í hættu þegar þær eru notaðar og þeim haldið við eins og ætlast er til.

Reglugerðin kemur sum sé í veg fyrir að menn setji upp hlífar sem skaða aðra, en fyrir setningu reglugerðarinnar var til dæmis algengt að spjótsoddar stæðu út úr rafsuðuhjálmum og jók það mjög á hættuna af starfi rafsuðumanna.

Brýnum reglugerðum á borð við þessa hefur fjölgað ört síðustu árin og því er ekki nema von að launakostnaður ríkisins rjúki upp úr öllu valdi og fjármálaráðherra sé að missa tökin. Ekki hefði þó verið hægt að ætlast til að ráðherrar hefðu fækkað starfsfólki og dregið úr skriffinnskunni. Nei, enga vitleysu, útþensla ríkisins verður að hafa sinn gang.