Hinn þekkti söngvari, José Carreras, hélt tónleika í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld og tróð þar upp ásamt sópransöngkonunni Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Íslensku óperunnar. Tónleikarnir fóru fram fyrir fullu húsi og munu flestir gestir hafa skemmt sér vel. Þá var umgjörð tónleikanna öll hin glæsilegasta og var meðal annars gefin út glæsileg tónleikaskrá, prógram, þar sem sögð voru deili á listamönnunum. Og þar var einnig ávarp menntamálaráðherra. Ávarpið er örstutt, aðeins 6 málsgreinar. En jafnvel í svo stuttum texta tekst Birni Bjarnasyni að koma að fullyrðingum sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við:
„Markvisst er unnið að því að skapa hér hinar bestu aðstæður til tónlistarflutnings. Undanfarnar vikur hefur farið fram hugmyndasamkeppni um skipulag í miðborg Reykjavíkur og við höfnina, þar sem tónlistarhúsið mun rísa. Þegar húsið kemur til sögunnar munum við njóta þess enn betur en til þessa að fá frábæra tónlistarmenn í heimsókn.“ – Eða svo segir Björn. Og af því tilefni ítrekar Vefþjóðviljinn það sem hann hefur áður neyðst til þess að taka fram: Það hefur ekki verið ákveðið að reisa tónlistarhús fyrir opinbert fé. Hvorki niðrá höfn né annars staðar. Eða er Björn tilbúinn að upplýsa hve miklu fé Alþingi hefur veitt á fjárlögum til þeirrar byggingar? Eða hve rausnarleg Reykjavíkurborg hefur verið í sínum fjárhagsáætlunum?
Nei, slík ákvörðun hefur ekki verið tekin og verður vonandi aldrei tekin. Og það er einmitt þess vegna sem Björn Bjarnason notar hvert tækifæri til að tala eins og ákvörðun hafi verið tekin og ekkert sé eftir nema hefjast handa. Þetta eru einfaldlega venjulegar heilaþvottartilraunir sem ætlað er sannfæra fólk – og þá ekki síst alþingismenn – um að þetta mál sé frágengið. En þær tilraunir mega ekki og munu ekki bera árangur. Allt venjulegt fólk mun alltaf sjá í gegnum innantómar fullyrðingar og staðlausa stafi örvæntingarfyllstu ríkistónlistarhúss-sinnanna.
Þótt það sé svo annað mál, þá mættu Björn Bjarnason og stuðningsmenn hans hins vegar leiða hugann að öðru. Og það er það að þessi hvimleiði tónlistarhúss-söngur Björns – sem og ýmsar aðrar baráttuaðferðir hans í þessu máli – draga svo um munar úr því áliti sem frjálslyndir menn myndu eflaust margir annars hafa á Birni, og þeim vonum sem þeir myndu binda við hann að öðrum kosti. Eins og menn vita hafa skattgreiðendur fram til þessa átt minna en engan vin í núverandi fjármálaráðherra eins og ævintýraleg aukning ríkisútgjalda undir hans stjórn er til vitnis um. Og því er það enn verra og sárara en ella þegar aðrir ráðherrar leggjast með ofurþunga á útgjaldasveifina, sérhagsmunamegin.