Fyrir þremur árum kom út afmælisrit Stefs, Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar. Mun útgáfa þess ekki hafa vakið sérstaka eftirtekt almennings og flestir hafa leitt þetta gagnmerka rit hjá sér. Að minnsta kosti hefur athyglin ekki verið meiri en svo að í gær var Knúti Hallssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra nóg boðið. Ritaði hann því grein í Morgunblaðið um þessa bók og lofaði hana svo að sennilega hafa fáir staðist þá freistingu að verða sér út um hana þegar í stað.
Knútur er ekki aðeins afar hrifinn af bókinni heldur einnig af þessum tilteknu hagsmunasamtökum og baráttu þeirra fyrir öflugum höfundarétti. Það vantar heldur ekki að þau hafi látið að sér kveða og barist kröftuglega fyrir rétti höfunda til að heimta gjald af öllum þeim sem á einhvern hátt nýta sér tónverk félagsmanna. Hefur samtökunum meira að segja haldist uppi að krefja rakarastofur og veitingastaði um þóknun ef svo háttar til að hugsanlegt er að viðskiptavinir þeirra geti heyrt í útvarpi á meðan á viðskiptum stendur. Engu virðist skipta þótt útvarpsstöðin hafi áður greitt Stefi fyrir öll lög sem hún sendir út, Stef fær að rukka sérstaklega fyrir þennan „opinbera flutning“ á rakarastofunni.
En það eru enn til svið þar sem Stef hefur ekki komist með klærnar. Um það vitnar að minnsta kosti limra Þorsteins heitins Valdimarssonar:
Ég er óháður alveldi Stefs
því hið innblásna sönglag míns nefs
það skemmtir mér einum
hnuplar engu frá neinum
og er einungis gjaldskylt til Kvefs.