Þeir sem kjósa að tjá sig á opinberum vettvangi verða að temja sér það sem kallað er pólitísk rétthugsun. Ella er voðinn vís. Alls kyns orð hafa skyndilega verið lýst „gildishlaðin“ og þar með bönnuð og mönnum í fullri alvöru hótað opinberri ákæru ef þeir nota þau um ranga aðila. Reyndar er yfirleitt varhugavert að tala tæpitungulaust, það er, að lýsa hlut eða einstaklingi eins og hann kemur fyrir eða hafa orð á því sem augljóst er flestum mönnum. Nema að vísu að rætt sé um stjórnmálamenn eða aðrar „opinberar persónur“. Þá má allt. Þá er það nefnilega liður í „opinni umræðu í lýðræðisþjóðfélagi“. Sá sem ekki fer vandlega eftir þessari lítt duldu ritskoðun sem komið hefur verið á, hann verður strax úthrópaður sem fordómafullur, afturhaldssinnaður fauti, sem auk þess sé nasisti, rasisti, fasisti og líklega flest illt nema kommúnisti. Það er nefnilega alveg bannað að kalla nokkurn mann kommúnista nema Li Peng. Og það eiga allir að vera á móti honum.
Einkenni pólitískrar rétthugsunar eru einkum tvenn. Hún birtist eins og hvimleið slikja sem liggur yfir þjóðmálaumræðunni og heldur henni teprulegri, uppskrúfaðri og tilgerðarlegri. Hins vegar birtast áhrif hennar í lögum og reglugerðum en hún leiðir iðulega af sér slæmar ákvarðanir hins opinbera þegar kemur að ýmsum viðkvæmum málum. Íslensk lög um áfengi, tóbak, erótík og fæðingarorlof, að ekki sé minnst á hina ótrúlegu „jafnréttislöggjöf“, eru til dæmis skilgetin afkvæmi rétthugsunarinnar. – Hér er rétt að vara menn við því að nota orðið „skilgetin“ um börn, það má ekki lengur. Það gæti nefnilega gefið í skyn að skilgetin börn séu á einhvern hátt betri en óskilgetin.
En pólitísk rétthugsun getur einnig beinlínis kostað menn lífið. Í borginni Boston í Bandaríkjunum hafa kröfur um kórrétta hegðun nú náð svo langt að þeir sem ganga alræði rétttrúnaðarins á hönd geta goldið fyrir það með lífi sínu. Þannig vill til, að í einu af, ja hvað skal segja, verri hverfum Boston-borgar hefur undanfarið mjög færst í vöxt að leigubílstjórar séu beittir ofbeldi af hverfisbúum. Þetta á sér aðallega stað um miðja nótt í námunda við tiltekið torg í miðju hverfisins. Og ofbeldismennirnir hafa hingað til verið ungir karlmenn. Í síðasta mánuði lauk til dæmis einum túrnum á því að kúnninn skaut bílstjórann í hálsinn og liggur sá enn milli heims og helju.
Viðbrögð margra leigubifreiðastjóra verða líklega að teljast eðlileg; þeir sögðust ætla að gæta að öryggi sínu með því að neita sér um að eiga viðskipti við unga karlmenn á þessu svæði um miðja nótt. Þeir mátu stöðuna þannig, að glæpaaldan á þessu afmarkaða svæði, af hendi þessa afmarkaða hóps, á þessum afmarkaða tíma, væri slík að viðskipti við nákvæmlega þennan hóp, á þessum stað á þessum tíma sólarhrings, væru ekki áhættunnar virði. En bílstjórarnir áttuðu sig ekki á einu. Þannig vill nefnilega til að í þessu hverfi býr einkum svart fólk og ofbeldismennirnir hafa einungis verið ungir svartir karlmenn. Tilraunir bílstjóranna til að vernda líf sitt og heilsu ganga því þvert á enn brýnni rétt pólitíkusa til að vera kórréttir í hugsun, hliðhollir öllum minnihlutahópum og ofsóttum kynþáttum.
Borgarstjórinn í Boston, Thomas M. Menino að nafni, hann er einmitt sérstaklega rétttrúaður maður, og hann hefur aldrei heyrt minnst á annað eins hneyksli. Og það eru ekki árásirnar á leigubílstjórana sem hneyksla borgarstjórann svo mjög, heldur tilraunir annarra bílstjóra til að forðast árásir. Hann hefur því fyrirskipað að ef sjáist til leigubílstjóra neita ungum svörtum manni, á skuggalegum stað um miðja nótt, um far, að þá skuli úrþvættið – það er bílstjórinn – svipt atvinnuleyfi sínu þegar í stað. Og til að tryggja að glæpamennirnir – það er bílstjórarnir – sleppi ekki úr klóm yfirvalda, þá hefur borgarstjórinn góði sent út tálbeitur, svarta lögregluþjóna sem dulbúast meðal glæpaklíkna á hættulegustu stöðunum um miðja nótt og veifa þar eftir leigubílum.
Og þetta gerir hinn umburðarlyndi, víðsýni, nútímamaður, Thomas M. Menino, allt í nafni baráttu gegn kynþáttahatri. Menino er einmitt sérlega hugað um að vera talinn pólitískur rétthugsuður og hann ætlar nú ekki að fá á sig eitthvert rasistaorð fyrir að taka lint á þessum kúklúxklan-mönnum í leigubílunum. Það er svo aukaatriði hversu vel bílstjórunum, sem eru að reyna að vernda öryggi sitt, líkar að sitja undir kynþáttahatursstimpli sem „umburðarlyndir“ menn um alla Boston-borg keppast við að klína á þá. Og ef einhver hefur áhuga á hörundslit þeirra, hvaða máli sem hann getur svo sem skipt, þá má geta þess að leigubílstjórarnir, þeir eru líka svartir. Ef það má þá nota það orð.
Og við þessar frásagnir af glímu bostonskra leigubílstjóra við varðhunda pólitíska rétttrúnaðarins má svo bæta þeirri skoðun Vefþjóðviljans að hið opinbera eigi ekki að skipta sér af því hverjir aki leigubílum og hverjir ekki. Að mönnum eigi að vera frjálst að semja sín á milli um það hver ferji hvern. Og í því felst einnig sú skoðun að enginn skuli neyddur til að flytja þann kúnna sem honum líst ekki á. Og að enginn verði þvingaður til að taka sér far hjá leigubílstjóra sem hann treystir ekki.