Helgarsprokið 5. ágúst 2001

217. tbl. 5. árg.

Sum lagafrumvörp eru svo mikið illgresi að þingmenn þurfa að reyta þau út af þingi á hverju ári. Eitt þeirra er frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri um fjárreiður stjórnmálaflokka. Þetta frumvarp hefur skotið upp kollinum sex ár í röð og mun án efa gera það næsta vetur einnig enda nægur jarðvegur til staðar í Samfylkingunni fyrir illgresi af þessu tagi. Jóhann mun þó ekki verða ein á ferð með frumvarpið í haust heldur mun Sverrir Hermannsson úr flokki þeirra sem vilja fara frjálslega með annarra manna fé leggja henni lið. Eru það sanngjörn meðmæli með frumvarpinu.

Víða hefur verið reynt að setja sérstök lög um fjárreiður stjórnmálasamtaka. Hvergi hafa slík lög skilað þeim árangri sem til var ætlast. Í greinargerð með frumvarpi Jóhönnu segir um tilgang þess: „Á Íslandi hefur lengi tíðkast að einstaklingar og fyrirtæki styrki fjárhagslega þau stjórnmálasamtök sem þeir styðja. Það getur skapað tortryggni að leynd hvíli yfir háum styrkjum frá einstaklingum eða fyrirtækjum, enda er það óeðlilegt. Einnig getur verið hætta á hagsmunaárekstrum.“ Gott og vel. Gerum ráð fyrir að á þessu frumvarpi séu engir tæknilegir gallar og lögin tryggi að öll framlög til stjórnmálaflokka verði gefin upp. Þá fyrst verða stjórnmálaflokkar háðir einstökum þrýstihópum. Þegar búið er að lama sjálfstæða fjáröflun flokkanna verða þeir háðari velvilja annarra sem beita sér í þjóðmálaumræðunni svo sem hagmunasamtaka af ýmsu tagi. Því miður nær þessi hugsun Jóhönnu og félaga ekki alla leið. Þegar bókhaldið liggur á glámbekk eru flokkarnir berskjaldaðir fyrir tilraunum til að hafa áhrif með fjárframlögum.

En á lögum af þessu tagi er einnig annar galli sem Þjóðvaka-Hanna ætti að átta sig á. Nýir frambjóðendur og flokkar eiga oft á brattann að sækja í byrjun og þurfa jafnan tíma til að vinna sér sess sem trúverðugir aðilar. Það hefur reynst erfitt fyrir þessa flokka og frambjóðendur að fá styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum, jafnvel þótt nöfn stuðningsmanna séu ekki gefin út í Stjórnartíðindum eins og frumvarp Jóhönnu gerir ráð fyrir. Lög sem skylda menn til að gefa upp nöfn stuðningsmanna sinna eru til þess fallin að draga úr frjálsum framlögum til stjórnmálasamtaka almennt en líklega myndu nýir flokkar og frambjóðendur verða verst úti. Slík lög gætu því virkað sem vörn þeirra sem þegar sitja á þingi gegn nýjum frambjóðendum. Ekki síst á meðan þeir flokkar og þingmenn sem fyrir eru njóta ríkulegs fjárstuðnings frá hinu opinbera. Frumvarp Jóhönnu og félaga gerir ráð fyrir að almenningur, þar með taldir þeir sem eru að stofna nýja flokka til höfuðs þeim gömlu, greiði gömlu flokkunum árlega styrki. Með öðrum orðum vill Jóhanna gera nýjum frambjóðendum eins erfitt fyrir og mögulegt er en veita sitjandi þingmönnum stuðning á kostnað á skattgreiðenda.

Alvarlegast er þó að með reglum af þessu tagi væri vegið að tjáningarfrelsi manna. Margir vilja taka þátt í hugmyndabaráttu án beinnar þátttöku. Ýmsum hentar ekki að flagga því opinberlega hvaða flokka þeir styðja, aðrir hafa ekki tíma, heilsu eða nennu til að standa í flokksstarfi. Þeir vilja einfaldlega leggja sitt af mörkum með fjárframlögum. Raunar má ætla að þetta sé ein helsta leiðin sem hinn almenni maður velur til þátttöku í stjórnmálastarfi. Það er nú nóg samt þótt ríkið fari ekki að birta skrár yfir það hvaða flokka menn styðja. Launamál  hins almenna manns eru berstrípuð á hverju ári með birtingu álagningar- og skattskrár. Vilja menn bæta um betur og birta upplýsingar um í hvaða stjórnmálaflokka menn eyða fé sínu?

En það eru einnig margir tæknilegir hnökrar á frumvarpi Jóhönnu. Í fyrsta lagi munu þeir sem vilja styðja ákveðinn málstað, án þess að nafn þeirra komi fram, einfaldlega fara í kringum þessi lög. Vafalítið yrðu stofnuð stuðningsfélög sem gætu tekið við styrkjum og greitt reikninga fyrir flokkana. Þjóðvaki gæti verið eitt slíkt, Alþýðuflokkurinn annað, útgáfufélag Dags, Tilsjá leynilegt útgáfufélag Helgarpóstsins, Sigfúsarsjóður, Mál og menning. Jafnvel Arnarsson og Hjörvar hf. Hagsmunasamtök gætu einnig beitt sér af meira afli fyrir kosningar. Eins og fyrr segir myndi þessi breyting draga úr fjárhagslegu sjálfstæði flokkanna. Þeir yrðu háðari því að önnur hagsmunasamtök beindu kröftum sínum og fjármunum í þágu þeirra. Væntanlega myndi auglýsingum eins og „Ungt fólk í Samfylkingunni“ birti fyrir síðustu kosningar fjölga. Þar greiddu hagsmunasamtök fyrir auglýsingu í nafni fólks innan tiltekins stjórnmálaflokks. Stjórnmálaflokkarnir þyrftu í vaxandi mæli að semja um auglýsingar sem þessar við þrýstihópana sem herja á þingið um fjárframlög frá skattgreiðendum.

Hinir fáliðuðu stuðningsmenn aukinna laga og reglna um fjármál stjórnmálaflokka vísa mjög til þess að í ýmsum öðrum löndum eru flóknar reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Segir þetta ekki allt sem segja þarf? Jú reyndar. Í þessum löndum er linnulítið karp um hvernig þessi lög eigi að vera og hvernig megi stoppa í ýmis göt á þeim en sífellt opnast nýjar glufur um leið og öðrum er lokað. Í þessum löndum koma reglulega upp mál er varða fjármálaóreiðu og misferli. Þrátt fyrir allar reglurnar.

Reglur um fjármál stjórnmálaflokka eru sagðar til þess að minnka líkur á því að stjórnmálamenn láti kaupa sig og það bitni svo á almenningi í formi óeðlilegrar fyrirgreiðslu. En hvers vegna hafa Jóhanna Sigurðardóttir og meðreiðarsveinar hennar þá notað hvert tækifæri til að bregða fæti fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja? Með einkavæðingu fækkar þeim tækifærum sem stjórnmálamenn hafa til að óeðlilegrar fyrirgreiðslu hvort sem það er vegna þess að þeir hafi látið kaupa sig með fjárframlögum eða eru bara í ósvífnum atkvæðakaupum.