Laugardagur 4. ágúst 2001

216. tbl. 5. árg.

Frekja forráðamanna íþróttafélaga er landskunn og sýnileg hverjum þeim sem lesið hefur fréttir af styrkveitingum til íþróttamála. Tugum og hundruðum milljóna er varið í hvert íþróttamannvirkið á fætur öðru og aldrei virðist nóg vera gert. Nýlegt dæmi um þetta er fjárkrafa Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, en sá klúbbur samanstendur af rúmlega 600 klúbbfélögum. Klúbburinn fær 10 milljónir króna í styrk frá hvoru bæjarfélagi á ári og að auki fær hann styrk í formi starfskrafta unglinga sem þiggja laun frá skattgreiðendum en starfa fyrir klúbbinn. En þetta nægir klúbbmeðlimum ekki. Þeir fara nú fram á að bæjarfélögin tvö taki litlar 80 milljónir til viðbótar af útsvarsgreiðendum og afhendi þessum 600 hræðum sem kjósa að safnast saman til að slá litlar kúlur með kylfum. Þessir rúmlega 600 sláttumenn gætu séð sóma sinn í að greiða áhugamál sitt sjálfir með því að verja til þess rúmum 130 þúsund krónum hver, þ.e. 80 milljónum króna samanlagt, og láta aðra menn í Kópavogi og Garðabæ í friði. En þeim þykir mun þægilegra að fara í vasa nágranna sinna og hirða af hverjum og einum tæpar 3.000 krónur. Einhverra hluta vegna eru golfklúbbsmennirnir þeirrar skoðunar að þeir eigi meiri rétt á að njóta þessara 3.000 króna en eigendur fjárins sem þó hafa unnið fyrir því.

Hvað þætti fólki um það ef félagar í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar settu upp grímur og færu að næturlagi inn á heimili fólks í nefndum bæjarfélögum og hefðu þaðan verðmæti? En ef klúbbmeðlimir stunduðu vasaþjófnað í verslunarmiðstöðvum í Garðabæ og Kópavogi? Ætli nokkrum þætti þeir eiga heimtingu á ránsfengnum? Nei, vitaskuld ekki. Og þeir eiga ekki heldur heimtingu á honum þó þeim takist að þvinga út féð í gegnum veikgeðja bæjarfulltrúa, sem telja að með því að samþykkja gripdeildina muni þeir kaupa sér nokkur atkvæði. Það að taka fé af einum manni til að annar geti stundað áhugamál sitt getur aldrei orðið réttlátt eða sanngjarnt, hvort sem féð er tekið í skjóli nætur eða á fundi bæjarstjórnar.