Helgarsprokið 29. júlí 2001

210. tbl. 5. árg.

The Economist hefur um árabil stutt lögleyfingu fíkniefna. Í nýjasta tölublaði tímaritsins er mikil úttekt á þessu máli og lögleyfingin rökstudd ýtarlega. Sumir hlutar The Economist á Netinu eru lokaðir öðrum en áskrifendum, en þessi úttekt er öllum opin og er óhætt að mæla með lestri hennar. Tímaritið segir tvær röksemdir fyrir lögleyfingu fíkniefna; annars vegar rök sem snúast um grundvallarafstöðu til réttinda einstaklinga og hins vegar nytjahyggjurök. Varðandi fyrrnefndu rökin vísar tímaritið til orða heimspekingsins Johns Stuarts Mills og tekur undir með honum um það að ríkið hafi ekkert með að banna eitthvað af þeirri ástæðu einni að einstaklingar geti skaðað sjálfa sig á því. Mill var þeirrar skoðunar að hver einstaklingur ætti að fá að ráða sér sjálfur. Þessi sjónarmið Mills mæta því miður ekki alltaf skilningi þegar lagasetning er annars vegar, en ættu vitaskuld að vera leiðarljós við þingstörf, hvort sem um er að ræða fíkniefni eða eitthvað annað.

Af opinberum umræðum mætti stundum ætla að allir þeir sem prófi ólögleg fíkniefni, að minnsta kosti þau sterkari, séu þegar búnir að kasta lífi sínu á glæ. En þó margir fari illa út úr ofneyslu þessara efna er raunveruleikinn sem betur fer ekki alveg svona hrikalegur.

Síðarnefndu rökin, þau sem kennd eru við nytjahyggju, eru í stuttu máli að þó ofneysla fíkniefna hafi margt illt í för með sér þá séu afleiðingar bannsins enn verri. Ein afleiðing bannsins eru þeir glæpir sem fíklar fremja til að verða sér úti um fé til að standa undir neyslunni. Þessir glæpir eru þjófnaðir og rán sem öllum almenningi stendur ógn af. Í úttekt The Economist er nefnt dæmi frá Sviss þar sem starfandi eru læknastöðvar sem útvega langt leiddum heróínneytendum þá skammta sem þeir þurfa án endurgjalds. Í lögregluskýrslum kemur fram að 60% fækkun hefur orðið á glæpum þeirra sem njóta þjónustu þessara læknastöðva. Ástæður þess að glæpirnir hverfa ekki algerlega geta verið ýmsar, til dæmis að heróínfíklarnir nota oft líka önnur fíkniefni eins og kókaín og þurfa þá að útvega fé til neyslu þeirra.

Önnur neikvæð afleiðing er að fangelsi yfirfyllast af ungu fólki og vistina er ekki beinlínis hægt að kalla betrunarvist, því þetta fólk kemur yfirleitt illa leikið út í þjóðfélagið að nýju og er oft í verra ástandi en þegar það fór inn. Að sögn The Economist er þetta langversta afleiðing bannsins. Fram kemur að helmingur fanga bandaríska alríkisins situr inni fyrir fíkniefnabrot og um fjórðungur þeirra sem sæta varðhaldi gera það vegna slíkra brota. Þessir fangar eru yfirleitt ekki inni vegna ofbeldisglæpa og í aðeins 12% tilvika var vopni beitt þegar glæpurinn var framinn.

Í þriðja lagi er í úttektinni fjallað um afleiðingu fíkniefnabannsins fyrir löggæslu og dómstóla og því haldið fram að persónuréttindum almennings sé hætta búin vegna þeirra óvenjulegu og oft harkalegu aðgerða sem lögregla grípi til í því skyni að koma höndum yfir þá sem gerast brotlegir við fíkniefnalöggjöfina. Vísað er til þess að lögregla sé með hálfgerðar hersveitir, svo kallaðar sérsveitir, á götum bandarískra borga og að lögreglumenn eigi það til að segja ósatt í viðleitni sinni til að koma glæpaklíkum bak við lás og slá. Þá verði þess jafnvel vart að lögreglan sé notuð til að losa tilteknar glæpaklíkur við keppninauta. Eins og kunnugt er ganga bæði kaupandi og seljandi fíkniefnanna að viðskiptunum af fúsum og frjálsum vilja. Þess vegna skortir fórnarlambið þegar fíkniefnalöggjöfin er brotin, ólíkt því til dæmis ef maður er rændur eða á hann er ráðist. Lögreglan verður því við lausn fíkniefnaglæpa að notast í meira mæli við alls kyns óvenjulegar aðferðir, svo sem hleranir eða tálbeitur. Slík vinnubrögð geta svo  haft slæm áhrif fyrir réttarkerfið, en yfirleitt mun ekki litið til þessa þegar verið er að fjalla um kostnað af fíkniefnabanninu.

Þá gleymist oft að það „stríð gegn fíkniefnum“ sem háð hefur verið árangurslaust um áratugaskeið í Bandaríkjunum hefur ekki aðeins slæmar afleiðingar á Bandaríkin sjálf heldur ekki síður á ýmsa nágranna þeirra. Ríki Mið- og Suður-Ameríku búa sum hver við gerspillta lögreglu og dómstóla vegna þess að þau eru fátæk en bannið hefur gert fíkniefnasalana auðuga. Þeir geta því keypt opinbera starfsmenn og hefur verið giskað á að 20%-80% þeirra sem berjast gegn fíkniefnum í Mexíkó þiggi mútur frá glæpagengjum.

Fylgjendur fíkniefnabannsins halda því fram að þrátt fyrir allar hörmungarnar sem fylgja banninu verði að halda því áfram því afleiðingar neyslunnar séu svo skelfilegar. Einn af ókostunum við bannið er einmitt að gert hefur verið sem mest úr slæmum afleiðingum neyslu fíkniefna og menn hafa ekki alltaf gætt þess að halda sig við staðreyndir þegar fjallað er um þá hættu sem neyslunni fylgir. Hér skal alls ekki mælt með neyslu hinna ólöglegu fíkniefna og vissulega hafa margir farið afar illa út úr ofneyslu efnanna. En það er nauðsynlegt að fólk átti sig á því hversu hættuleg þau eru í raun svo það geti tekið rökstudda afstöðu til þess hvort bann við neyslu þeirra er réttlætanlegt miðað við allan þann kostnað sem það leggur á þjóðfélagið.

Af opinberum umræðum mætti stundum ætla að allir þeir sem prófi ólögleg fíkniefni, að minnsta kosti þau sterkari, séu þegar búnir að kasta lífi sínu á glæ. En þó margir fari illa út úr ofneyslu þessara efna er raunveruleikinn sem betur fer ekki alveg svona hrikalegur. Í úttekt The Economist er vitnað til könnunar sem gerð var í Þýskalandi árið 1997 og þar kemur fram að tæplega 80% kannabisneytenda neyta efnisins einu sinni í viku eða sjaldnar og næstum helmingur neytir þess sjaldnar en tíu sinnum á ári. Neytendur alsælu og kókaíns innbyrða þau efni jafnvel enn sjaldnar. Tímaritið segir að flest fíkniefni virðist ekki vera líkamlega vanabindandi og eru maríúana og amfetamín nefnd í því sambandi. Skoðanir á þessu kunni þó að breytast með auknum rannsóknum. Nefnt er að menn eigi erfitt með að losa sig undan krakk kókaín venju eftir að hafa prófað efnið nokkrum sinnum, en þeir virðist þó ekki verða líkamlega veikir eins og þegar menn hætta neyslu heróíns eða nikótíns eða koffíns. Í úttektinni er haft eftir yfirmanni í fíkniefnamálum í Hollandi að um 40-50% geti losað sig við heróínfíknina, en samsvarandi hlutfall fyrir kókaín sé um 90% og því sé ekki litið á efnið sem stórkostlegt vandamál. Niðurstaða The Economist er að jafnvel þó um sé að ræða allra mest vanabindandi fíkniefnin virðist einungis minnihluti neytenda verða háður neyslu þeirra. Þannig bendi tölur frá Bandaríkjunum til að þriðji hver neytandi heróíns sé háður efninu. Þetta sé sláandi tala, en þó ekki í samanburði við nikótín því 80% reykingamanna virðast verða háðir því.

Dauðsföll vegna ólöglegra fíkniefna virðast heldur ekki nærri eins algeng hlutfallslega þ.e. miðað við fjölda neytenda og dauðsföll af völdum reykinga eða neyslu áfengis. Í úttektinni kemur fram að einungis heróín geti jafnast á við reykingar eða áfengisneyslu þegar kemur að fjölda dauðsfalla neytendanna. Þá er vitnað til skýrslu sem segir að skyndileg dauðsföll vegna neyslu kókaíns, amfetamíns eða alsælu séu óalgeng, en þau fái hins vegar mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í Hollandi látist tveir á ári vegna neyslu kókaíns og einn sem hafi alsælu í blóðinu, en þá sé jafnvel ólíklegt að alsælan ein hafi valdið dauðsfallinu. Þá er vitnað í breskt læknatímarit þar sem segir: „Eðlilegt er að meta það sem svo, að hættan af kannabisefnum sé minni en af áfengi eða tóbaki … Þær læknisfræðilegu sannanir sem til eru gefa til kynna að hófleg neysla kannabisefna hafi ekki mikil slæm áhrif á heilsuna.“

Í nýjasta tölublaði The Economist eru færð rök fyrir lögleyfingu fíkniefna
Í nýjasta tölublaði The Economist eru færð rök fyrir lögleyfingu fíkniefna

The Economist heldur því fram að mikill minnihluti fíkniefnaneytenda verði mjög illa úti vegna neyslunnar, þó rétt sé að fíkniefni eyðileggi líf margra. Hjá flestum sé neysla fíkniefna aðeins um skeið hluti af lífinu. Vísað er til könnunar sem gerð var við Háskólann í Amsterdam þar sem fylgst var með hópi dæmigerðra kókaínneytenda. Eftir tíu ár voru 60% neytendanna algerlega hætt neyslunni og 40% héldu áfram að neyta kókaíns af og til. Haft er eftir þeim sem gerði rannsóknina að flestir fíkniefnaneytendur hætti neyslunni á endanum. „Fíkniefnin passa ekki lengur inn í lífsstílinn,“ segir hann, „neytendurnir fara að vinna, þurfa að vakna snemma, hætta að fara á diskótek og þeir eignast börn.“

Margir láta sannfærast um að nauðsynlegt sé að banna fíkniefni þegar þeim er sagt að vægu efnin leiði til neyslu hinna hörðu. „Staðreyndin er sú,“ segir The Economist, „að þetta reynist vera endaleysa.“ Tímaritið segir að vissulega hafi flestir þeir sem neyti hörðu efnanna yfirleitt fyrst reykt maríúana, en reyndin sé sú að langflestir þeirra sem neyta maríúana leiðist ekki yfir í harðari efnin.

Ef afleiðingar fíkniefnabannsins eru verri en afleiðingar þess að leyfa efnin, hver er þá lausnin? The Economist bendir á ýmislegt sem gert hefur verið til að draga úr slæmum afleiðingum bannsins og neyslunnar. Hér að ofan var minnst á læknastöðvar í Sviss sem útvega langt leiddum heróínfíklum endurgjaldslausa skammta. Auk þess að draga verulega úr afbrotum fíklanna bætir þetta úrræði líf fíklanna og tveir þriðju þeirra geta jafnvel unnið með neyslunni eftir að hún er orðin í samráði við lækni. Þá er sums staðar reynt að aðgreina hörðu efnin og þau veikari. Þetta á til að mynda að reyna í Sviss ef frumvarp sem liggur fyrir þar verður að lögum og sem kunnugt er hefur þetta verið gert í Hollandi um árabil. Þar er kannabis bannað en látið afskiptalaust í litlum mæli ef það er ekki selt ungmennum. Og raunar er það þannig í Hollandi að tiltölulega færri neyta þessara efna en í ýmsum Evrópulöndum þar sem hart er tekið á lögbrotum af þessu tagi. En þó ýmsar aðgerðir af þessu tagi geti dregið úr slæmum afleiðingum fíkniefnabannsins koma þær ekki staðinn fyrir lögleyfingu. The Economist mælir með því að við lögleyfingu fikri menn sig hægt áfram en þó örugglega. Byrja megi á kannabisefnum og amfetamíni og reyna mismunandi aðferðir. Harðari efni megi byrja að selja í lyfjaverslunum.

Eins og áður hefur verið bent á hér í Vefþjóðviljanum er viðhorf fólks til fíkniefnabannsins að breytast hratt. Engin leið er að segja hversu hratt þetta viðhorf mun breytast eða hvenær fíkniefni verða lögleyfð, en ólíklegt verður að teljast að bannið haldi um langa framtíð. Hið opinbera hér á landi ætti þegar að fara að undirbúa breytingar og fyrsta skrefið í þá átt mætti vera að hætta að setja óraunhæf markmið um „fíkniefnalaust Ísland“ og að hætta að halda röngum upplýsingum að almenningi. Nauðsynlegt er að umræða um þessi mál sé yfirveguð og byggð á rökum. Í fyrsta lagi vegna þess að málið snýst um grundvallarréttindi fólks til yfirráða yfir eigin lífi, í öðru lagi vegna þess að bannið hefur haft mjög slæmar afleiðingar á samfélagið og í þriðja lagi vegna þess að margir eiga um sárt að binda vegna ofneyslu ólöglegra fíkniefna.

En þó enginn viti hvenær breytingar verða gerðar á fíkniefnalöggjöfinni í löndum heims má hafa í huga það sem bent er á í úttekt The Economist, að í kosningum í Bandaríkjunum árið 1928 var mikill stuðningur við áfengisbannið sem þá var í gildi í landinu. Fjórum árum síðar hafði viðhorfið gerbreyst og alger andstaða var þá orðin við bannið.