Mánudagur 30. júlí 2001

211. tbl. 5. árg.

Það var gaman að heyra í Steingrími J. Sigfússyni formanni vinstrigrænna í fréttum Ríkisútvarpsins í fyrrakvöld. Steingrímur og flokkur hans og raunar stór hluti hins stjórnarandstöðuflokksins einnig hafa lagt mikið á sig til að brýna ríkisstjórn Íslands til að gerast aðili að Kyoto bókuninni. Ella verði Íslendingar að heimsviðundri í umhverfismálum. Nú stefnir í að Ísland verði aðili að bókuninni en Steingrímur er ekki mjög sæll með þá niðurstöðu. Annars vegar getur hann ekki lengur gagnrýnt að Íslendingar verði ekki aðilar. Hins vegar virðast Íslendingar ætla að fá leyfi til að framleiða meira ál með minnsta mögulega útblæstri gróðurhúsalofttegunda (þar sem orkan kemur úr fallvötnum) en þótt Steingrímur hafi miklar áhyggjur af útblæstri gróðurhúsalofttegunda vill hann ekki að íslensk fallvötn verði nýtt til að lágmarka þann útblástur.

Steingrímur orðaði það svo í viðtalinu í gær að nú gætu Íslendingar orðið heimsmeistarar í losun gróðurhúsalofttegunda á mann. Þetta lapti Kolbrún Halldórsdóttir upp eftir leiðtoga sínum í Deiglunni í Ríkissjónvarpinu sama kvöld. En segir losun gróðurhúsalofttegunda á mann eitthvað um það hvort þjóðir nýta orku og auðlindir vel? Nei, reyndar ekkert. Eins og Kolbrún benti á losa sumar þjóðir þróunarlandanna afar lítið af gróðurhúsalofttegundum á mann. Þegar það er skoðað hversu miklu þær fá áorkað, hve mikið þær framleiða, með hinum litla útblæstri sínum kemur önnur mynd í ljós en Kolbrún og Steingrímur draga upp. Það er betra að útblásturinn komi einhverjum að gagni sama hversu lítill á mann hann er.

Ef Steingrímur og Kolbrún trúa þeirri kenningu sinni að útblástur á mann skipti mestu máli eiga þau auðvitað að flytja til Madagaskar eða annarra örsnauðra ríkja þar sem útblástur á mann er hvað minnstur og halda niðri í sér andanum. Þá minnkar útblásturinn þar á haus enn frekar og þau hafa gert mikið gagn.