Þriðjudagur 17. júlí 2001

198. tbl. 5. árg.

Tveir menn úr leikfangalandi voru áberandi í fréttum síðustu viku. Báðir hafa þeir gaman að bílum, lestum, jarðgöngum og fleiru sem telst eðlilegt að drengir sýni áhuga. Þessir piltar hafa það hins vegar fram yfir flesta aðra að þeir hafa aðgang að fé almennings.

Hjálmar Árnason hefur verið skipaður formaður nefndar sem gera á Grímsey að „sjálfbæru orkusamfélagi“. Að sögn Hjálmar er hugmyndin þannig til komin að „kunningi“ hans orðaði þetta við hann. „Við ræddum þetta síðan nokkrir félagar við iðnaðarráðherra sem brást vel við og skipaði nefndina,“ hafði Fréttablaðið eftir Hjálmari. Strákarnir hittast sem sagt og fá hugmynd og voila það er komin launuð nefnd. Ekki að undra þótt útgjöld hins opinbera aukist ár frá ári. Í nefndinni eiga sæti fimm manns og svo er einn starfsmaður. Íbúar í Grímsey eru 150 svo hver nefndarmaður á að gera 30 íbúa sjálfbæra í orkumálum. Í dag nýta íbúarnir olíu sem er ódýrasti og öruggasti kosturinn sem í boði er. Ef íbúarnir eru ekki haldnir sjálfspíningarhvöt eða einkennilegri eyðslusemi tækju þeir betri kost ef hann væri til. Þegar rætt er um að gera þá „sjálfbæra“ er hins vegar átt við að skattgreiðendur niðurgreiði dýrari kost svo sem smíði vindmyllu, virkjun sjávarfalla eða borun eftir jarðvarma.

Hinn fulltrúi leikfangalands í fréttum var nýr stjórnarformaður í nýju byggðasamlagi um akstur á tómum strætisvögnum um höfuðborgarsvæðið. Hann vill ekki aðeins leggja lestarteina í Reykjavík til að bæta við tómum járnbrautarvögnum heldur einnig grafa göng undir borgina þvera og endilanga fyrir lestina og aðra umferð. Hann sér fyrir sér mikinn kostnað við umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum og vill leggja sitt af mörkum til þess að þessi kostnaður verði enn meiri. Besta leiðin til þess er að grafa göng og setja lest á spor. Stjórnarformaðurinn var spurður að því í sjónvarpsfréttum hverjar líkurnar væru á því að lestin stæði undir sér. „Það fer eftir því hvaða forsendur menn gefa sér,“ svaraði hann að bragði. Já ekkert mál, bara gefa sér nægilega hagstæðar forsendur, þá aukast líkurnar á góðri afkomu.

Enginn skilur þó hvers vegna menn eru að tala um lest og umferðargöng í Reykjavík. Hér nota fáir niðurgreidda þjónustu strætisvagna enda er borgin of dreifð til að slík þjónusta gangi upp; akstur einkabílsins er eini samgöngumátinn sem stendur undir nafnbótinni almenningssamgöngur. Hér eru nær aldrei umferðarteppur og umferðaröngþveiti þekkist ekki. Mengun frá bílaumferð hefur farið minnkandi undanfarin ár eins og í öðrum vestrænum borgum og með betra viðhaldi gatna yrði hún hverfandi. En samt geta menn ekki slakað á. Nei, þeir þurfa endilega að finna leiðir til að henda hundruðum milljóna króna af almannafé út í hafsauga. Og enginn segir neitt við því.