Mánudagur 16. júlí 2001

197. tbl. 5. árg.

„Netið býr ekki til nýtt hagkerfi“, er fyrirsögn athyglisverðrar greinar eftir Dwight R. Lee sem birtist á heimasíðu Cato stofnunarinnar fyrir skömmu. Í greininni bendir Lee á að upplýsingahagkerfið hafi komið til sögunnar löngu fyrir tíma Netsins. Markaðshagkerfið byggi á flæði upplýsinga, en þær upplýsingar ferðist frá einum til annars með vöruverði. Í vöruverði felist upplýsingar og þær ásamt eignarréttinum hafi alltaf verið grundvallaratriði markaðshagkerfisins og aukið upplýsingaflæði vegna Netsins geri hagkerfið ekki að nýju hagkerfi þó það geti auðveldað viðskipti.

Lee útskýrir starfsemi markaðshagkerfisins með þessum hætti: „Á hverjum degi skiptist hvert okkar á skilaboðum við milljónir annarra í gegnum net markaðarins. Upplýsingarnar sem við sendum frá okkur eru mótteknar hratt af þeim sem geta nýtt þær best og þær segja þeim til hvaða aðgerða þeir eigi að grípa og færir þeim möguleikann og hvatann til að grípa til þessara aðgerða.
Niðurstaðan er alþjóðleg samvinna þar sem hvert okkar sinnir hagsmunum milljóna annarra með því að nýta tíma sinn og hæfileika til að framleiða það sem þessi fjöldi fólks hefur mesta þörf fyrir. Og um leið er okkur umbunað fyrir þessa þjónustu. Þetta net markaðarins hefur löngu fyrir tíma Netsins auðgað líf þeirra sem hafa verið svo lánsamir að búa í frjálsu hagkerfi.“

En þó Netinu fylgi ekki nýtt hagkerfi er það vissulega framför og það getur verið bæði gagnlegt og skemmtilegt. Og þó Al Gore hafi einn síns liðs eins og hann lýsti sjálfur í hógværð sinni skapað Netið, þá er það í dag gott dæmi um árangur af frjálsri og óþvingaðri samvinnu fólks.