Miðvikudagur 18. júlí 2001

199. tbl. 5. árg.

Viðtalið við Geoffrey Ballard í Morgunblaðinu 15. júlí 2001
Viðtalið við Geoffrey Ballard í Morgunblaðinu 15. júlí 2001

Hjálmar Árnason þingmaður hefur undanfarin ár beitt sér fyrir svonefndri „vetnisvæðingu Íslands“. Fetar hann þar í fóstspor þingmanna Kvennalistans sáluga sem drógu málið upphaflega inn í þingsali. Það sem átt er við með „vetnisvæðingu“ er að hefðbundnu eldsneyti er skipt út fyrir vetni. Vetnið yrði framleitt með rafmagni úr vatnsaflsvirkjunum hér á landi. Vetnið er því ekki nýr orkugjafi heldur þarf að framleiða það með orkugjafa á borð við íslensk fallvötn. Fáar þjóðir eiga hins vegar kost á að virkja orku fallvatna í sama mæli og Íslendingar. Flestar aðrar þjóðir þyrftu því að framleiða vetnið með orku úr kolum, olíu eða kjarnahvörfum. Í flestum tilfellum væri því aðeins verið að færa mengunina frá bruna kola og olíu til. Hún myndi færast úr bílvélinni og í kolakynt raforkuver.
Ef vetni yrði notað á efnarafala í bíl væri leiðin orkunnar út í hjól bílsins því þessi: Olíu eða kolum brennt til að framleiða rafmagn, rafmagnið notað til að rafgreina vatn í vetni, vetnið sett á háþrýstikút í bílnum, efnarafall breytir vetninu aftur í vatn svo úr verður rafmagn sem knýr bílinn áfram. Hvert skref þýðir tap á hluta upphafsorkunnar. Þótt það hljómi einkennilega er helsti ókostur vetnis hversu létt það er. Enn er afar dýrt að þjappa því saman til geymslu og óvíst um lausn á því máli. Þótt gamli sprengihreyfillinn nýti orkuna úr olíunni ekki nema að litlum hluta til að koma bíl áfram hefur hann enn vinninginn. Reyndar hafa verið gerðar miklar bætur á sprengihreyflinum og í nýjum tvinnbílum, sem fást þegar hér á landi, nýtur hann aðstoðar rafmótors sem geymir hluta orkunnar sem áður fór til spillis og nýtir hana svo til að knýja bílinn áfram við réttar aðstæður.

Íslenskir skattgreiðendur munu fá að kenna á „vetnisvæðingu“ Hjálmars með þeim hætti að hann hefur komið því til leiðar að íslenska ríkið og fleiri opinberir aðilar munu styðja við bakið á hinu efnalitla fyrirtæki Daimler-Chrysler og tilraunum þess með vetni. Skiptir sá stuðningur tugum, ef ekki hundruðum, milljóna króna. En það eru ekki allir sannfærðir um að Ísland eða aðrir hlutar heimsins verði „vetnisvæddir“ á næstunni. Í bílablaði Morgunblaðsins á sunnudaginn var vitnað í ræðu Geoffrey Ballard stjórnarformann General Hydrogen sem er frumkvöðull í nýtingu vetnis með efnarafölum. Í ræðunni kom meðal annars fram að Ballard væri þeirrar skoðunar „að núverandi þróun efnarafala fyrir fólksbíla væri fullkomlega ótímabær“. Þetta segir sumsé maður sem hefur þó framleiðslu efnarafala að lífsviðurværi. En Hjálmar Árnason veit betur og hefur lagt fé almennings undir.