Snemma í þessum mánuði, á sjötugsafmæli prófessors Sigurðar Líndals, vitnaði Vefþjóðviljinn í ritgerðina „Reglugerðarríkið“, sem Líndal birti árið 1986 í tímaritinu Frelsinu. Ritgerðin fjallar meðal annars um það hvaða takmörk séu fyrir því að ná stjórnmálamarkmiðum með lögum og reglugerðum og hvaða áhrif lög og reglugerðir geti haft á líf borgaranna. Þá eru rakin ýmis dæmi um ómarkvissa lagasetningu, lög sem eru innbyrðis ósamræmanleg, óframkvæmanleg eða sem virðast aðeins vera almennt hjal – í sumum tilfellum tóm froða. Segir í ritgerðinni að af þessu hafi leitt að „hugmyndir manna um lög [hafi] orðið æ þokukenndari, m.a. um það hvaða kröfur eigi að gera til þeirra og þá jafnframt oftrú á lögum og reglugerðum“. Margt er hnýsilegt í ritgerðinni og ómaksins vert að halda áfram að líta í hana, og það eins þó að fimmtán ár séu liðin frá því hún var sett saman. Víst hafa lög breyst á þessum árum, þau lög sem Sigurður nefndi eru mörg fallin úr gildi og önnur komin í þeirra stað, en umræðuefnið er sígilt og ritgerðin lærdómsrík.
Í ritgerðinni lét Sigurður ekki nægja að vekja athygli á ýmsu því sem aflaga hafði farið heldur velti einnig fyrir sér ástæðum þess að jafnvel heilu lagabálkarnir voru svo illa úr garði gerðir sem áður var nefnt. Í fyrri umfjöllun sinni um ritgerð Sigurðar tók Vefþjóðviljinn lítið dæmi af niðurstöðum hans en Sigurður nefndi fleiri atriði sem vert er að leiða hugann að. Gefum Sigurði Líndal orðið:
Lög eru mikilvægasta tæki stjórnmálamanna til að ná settum markmiðum, sem núorðið lúta flest að aragrúa smáatriða og glímu við tímabundin vandamál sem krefjast skjótrar úrlausnar. Nýr maður í valdasessi verður að sýna framtak og standa við fyrirheit og þá er útlátaminnst að láta setja saman lög. Allur almenningur á örðugt um vik að meta gæði og gildi laga svo að magnið verður sá mælikvarði sem helzt verður hampað. Allt ýtir þetta undir örar breytingar á löggjöf sem er í ýmsum greinum smásmyglisleg og óljós. Hættan verður sú að breytingar séu gerðar breytinganna vegna. (…) Í fjórða lagi má nefna stjórnmálaumræðuna sem ekki bætir úr. Hér eru ekki hafðar í huga ádeilur og illmæli sem henni hafa löngum fylgt, heldur hinn jákvæðari þáttur þar sem ræddar eru framfarir og umbætur. En þeir sem umræðum stýra eru stjórnmálamenn í gervi áróðursmanna eða lýðskrumara. Einkenni umræðunnar verður þá stöðluð vígorð sem skírskota til almennra gilda, svo sem framfara, allsnægta, velferðar, hamingju, jafnréttis, friðar og farsældar, en eru þó of margræð til að ljóst megi verða að hverju sé raunverulega stefnt. Þegar ræða á einstök málefni verður svipað uppi á teningnum; vikið er yfirborðslega að fáeinum aðalatriðum sem líklegt er að flestir geti skilið, en málum ekki gerð frekari skil. Auglýsingatækni nútímans og fjölmiðlabrellur ýta undir að þannig sé að umræðum staðið. Nú eru stjórnmál dægurmarkmiðanna, smáatriðanna, sérhæfingarinnar og hinna sundurleitu stefnumiða illa fallin til almennrar umræðu, svo að engan þarf að undra þótt þeim sé drepið á dreif eins og lýst hefur verið. En afleiðingin verður sú að umræðan slitnar úr tengslum við staðreyndir lífsins. Þegar svo áróðursmaðurinn eða lýðskrumarinn er seztur við stjórnvölinn og þarf að fást við veruleika sem er allt annar en hann hefur lýst verður sá kostur vænlegastur að flytja lýðskrumið að einhverju leyti í löggjöfina til þess að svo líti út sem það hafi verið marktæk umræða og til verða lög sem þegar hefur verið lýst. Löggjafinn og lýðskrumarinn hafa aldrei átt samleið. |
Nei, það er ekki gott þegar lýðskrumarinn tekur til við að semja lög. Eða þegar eirðarlausir stjórnmálamenn taka til við að láta semja ný „heildarlög“ á sviðum þar sem annað hvort einföld eldri lög höfðu dugað vel eða þá að engin sérstök lög höfðu verið um málefnið en öllum liðið vel. Nú eða þegar stjórnmálamenn sjá persónuleg sóknarfæri og hlaupa til og láta breyta lagaákvæðum í samræmi við nýjustu hrópin á torgunum. Að ekki sé talað um þegar lögleiddir eru erlendir tískustraumar sem hagsmunahópar, starfsmenn nýrra opinberra stofnana eða þá „framsæknir fræðimenn“ hafa allt í einu byrjað að boða eins og hver önnur sannindi og óumflýjanlega þróun. Í síðast nefnda tilvikinu skiptir öllu hvort stjórnmálamenn hafa bein í nefinu til að vefengja alla „fagmennskuna“ sem stjórnlyndir menn gera sér upp til að ná markmiðum sínum. Löggjafarvald er vandmeðfarið og það skiptir máli hverjir fara með það. Eða eins og Sigurður Líndal sagði í lokaorðum sínum fyrir fimmtán árum:
Ef stjórnlyndir menn fara með völd fjölgar lögum og reglugerðum, ákvæði verða smásmyglislegri og breytingar örari. Þannig verður það stjórnmálastefna sú sem fylgt er sem ræður því hvort frelsi ríkir í atvinnugrein eða höft og hömlur af ýmsu tagi. Og hér verða menn að spyrja sjálfa sig þeirrar samvizkuspurningar hvort þeir fylgi tiltekinni stjórnmálastefnu af heilum hug. Atvinnurekendur sem lasta laga- og reglugerðaflóðið mættu ef til vill líta í eigin barm og hugleiða, hvað af því sé komið fyrir tilverknað þeirra sjálfra og þá um leið hvort reglur hafi þau áhrif í reynd sem þeim er ætlað að hafa. Hér hefur verið reynt að vekja athygli á því að lögin hafa sjálfstæða verkan eins og þegar er lýst. Má meðal annars marka það af því að hingað til hefur reynzt ógerlegt að orða lagareglur um hvaðeina þannig að þær hafi tilætluð áhrif, t.d. ef stýra á háttsemi manna í hverju smáatriði. Fyrr eða síðar hætta þau að verka eða verka öfugt við tilgang sinn. Og þá er tvennt til; annað hvort viðurkenna menn að hér séu ríkisíhlutun sett takmörk eða landsstjórnin hættir að lúta reglum sem með réttu mega kallast lög. Ef menn hins vegar vilja virða grundvallarreglur lögbundins réttarríkis verða menn að sætta sig við að lagasetningarvaldinu eru takmörk sett og þar með íhlutun ríkisvaldsins. – Og þá afneita menn um leið reglugerðarríkinu. |