Laugardagur 14. júlí 2001

195. tbl. 5. árg.

Það var gersamlega ótrúleg frétt í nýjasta Viðskiptablaði Morgunblaðsins. Og af því hún snerist um ákveðin lög og Morgunblaðið er orðið eins og það er orðið, þá var henni skellt á forsíðu. Undir fyrirsögninni „Ráðherra í fæðingarorlofi“ upplýsti Morgunblaðið Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra yrði „í fæðingarorlofi næstu fimm vikurnar“ og var tekið fram að hann væri líklega fyrstur íslenskra ráðherra til að gera slíkt. Væntanlega hefur lesendum þótt þetta all nokkur tíðindi og sennilega strax velt fyrir sér hver yrði þá sjávarútvegsráðherra þessar vikur meðan Árni verði í orlofinu. En þá kemur snilldin: Á meðan Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra verður í fæðingarorlofi mun Árni Mathiesen sinna störfum sjávarútvegsráðherra.

Í sjávarútvegsráðuneytinu hangir nú þessi glæsilega mynd af núverandi sjávarútvegsráðherra.

Árni er nefnilega að fara í fæðingarorlof og mega menn af því ráða að hann er nútímalegur og mannlegur stjórnmálamaður. En hann mun sko verða „í 25% starfi á meðan“ og segir fjórðungsráðherrann í samtali við Morgunblaðið að meðan á fæðingarorlofinu standi þá verði hann „eflaust daglega í ráðuneytinu“ að sinna brýnum skyldustörfum sínum. Þessi svör Árna eru þess eðlis að vandséð er hvort er furðulegra, að ráðherra láti þau frá sér eða að fjölmiðill birti þau bara eins og ekkert sé. Því svo virðist eindregið sem þetta „fæðingarorlof“ Árna sé í senn della og sýndarmennska.

Hvernig er hægt að vera 25% ráðherra? Er kannski einhver 75 % sjávarútvegsráðherra á móti Árna? Ráðherra er æðsti handhafi framkvæmdavalds á sínu sviði og ráðherraembætti eru alltaf mönnuð, hvort sem að hinn reglulegi ráðherra eða settur ráðherra fer með það hverju sinni. En að ráðherraembætti sé starf sem menn gegni í hlutföllum, það er ný dellukenning sem hlýtur að vekja athygli.

Og hvers konar „orlof“ er það þegar menn mæta í vinnuna upp á hvern einasta dag? Af hverju í ósköpunum kallar maðurinn það „fæðingarorlof“ þegar hann mætir daglega í vinnuna og sinnir störfum sínum? Af hverju er verið að gefa embætti sínu og almennum borgurum þetta langa nef? Hvaða sýndarmennska er þetta? Vefþjóðviljinn hefði ekkert á móti því nema síður væri að Árni Mathiesen tæki sér langt frí frá störfum til að sinna búi og börnum. En þá segir Árni sig frá ráðherradómi á meðan á því stendur og annar maður verður settur til að gegna honum. Og Vefþjóðviljinn hefði heldur ekkert á móti því að starf sjávarútvegsráðherra yrði lagt niður og ráðuneytið sameinað öðrum atvinnuvegaráðuneytum, en á meðan til er embætti sjávarútvegsráðherra þá verður heill maður að gegna því. Ekki fjórðungur úr manni.

Og ráðherra verður einfaldlega að stilla sig um sýndarmennsku eins og þá sem Árni Mathiesen býður fólki upp á þessa dagana. Og það eins þó hann verði af örfáum stigum hjá æstasta fæðingarorlofsfólki landsins, liðinu sem daga og nætur situr og veltir fyrir sér nýjum og nýjum leiðum til að fá sem flesta feður út af vinnumarkaðnum og í launuð frí. Liðinu sem er algerlega sama þó þetta áhugamál þess kosti skattgreiðendur milljarða króna á hverju ári. Ráðherrann ætti að taka upp hanskann fyrir skattgreiðendur í stað þess að vera á kafi í sýndarmennskunni.