
Hungrað fólk í þróunarlöndunum fékk bandamenn úr óvæntri átt í vikunni þegar Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér skýrsluna Making New Technologies Work for the Human Development. Í skýrslunni er bent á að umhverfisverndarsamtök á Vesturlöndum hafi með baráttu sinni gegn erfðabreyttum matvælum komið í veg fyrir að seðja megi hungur víða í þróunarlöndunum. „Þróunarríkin þurfa á þessari tækni að halda eins fljótt og mögulegt er en ríkisstjórnir Evrópulanda og baráttuhópar gegn erfðatækni tefja málin“, er haft eftir Sakiko Fakuda-Parr einum skýrsluhöfunda. Mark Malloch Brown hjá Sameinuðu þjóðunum segir að mikilvægt sé að sá erfðabættum matjurtum sem víðast í þróunarlöndunum. Þannig megi seðja hungur allt að 800 milljóna manna. „Þessar erfðabættu plöntur gefa af sér helmingi meiri uppskeru, þroskast 30 til 50 dögum fyrr, hafa hærra prótein innihald, eru harðari af sér gagnvart þurrki, sjúkdómum og skordýrum og hafa jafnvel betur í baráttunni við illgresi.“
Helsta slagorð umhverfisverndarsinna gegn erfðatækninni er að „náttúran eigi að njóta vafans“. Þetta slagorð er raunar helsta röksemd þeirra í hvaða máli sem er. En umhverfisverndarsamtök og kerfiskarlar í umhverfisráðuneytum Evrópulanda hafa ekki aðeins hungur á samviskunni. Í skýrslunni frá Sameinuðu þjóðunum er einnig vikið að einu helsta baráttumáli umhverfisverndarsinna fyrr og síðar; baráttunni gegn DDT skordýraeitrinu. Á fjórða áratug síðustu aldar herjaði malaría ekki aðeins á fátækar þjóðir í hitabeltinu eins og nú. Þökk sé DDT tókst að útrýma plágunni í þróuðu löndum en DDT er enn ódýrasta og einfaldasta vörnin gegn moskítóflugunni sem ber malaríuna með sér. Önnur efni og varnir gegn flugunni eru enn sem komið er of dýr fyrir efnalitlar þjóðir utan Evrópu.
En með bók, sem varð fljótt að heilagri ritningu umhverfisverndarsinna, Silent Spring eftir Rachel Carson sem kom út árið 1962 varð DDT að helsta andskota umhverfisverndarsinna. Í Silent Spring spáði Carson miklum hörmungum í vistkerfinu. Engin af þeim dómsdagsspám hefur ræst. Hins vegar fengu yfir 300 milljónir manna fengu að kenna á malaríu á síðasta ári. En umhverfisverndarsinnar halda baráttunni gegn DDT áfram og segja náttúruna eiga að njóta vafans. Þá skipta hungur og sjúkdómar engu máli. Náttúran á að njóta vafans.