Íslenska stjórnkerfið hefur ekki undan tilskipana- og reglugerðaflóðinu frá ESB. Allt skal staðlað og steypt í sama mót Evrópuþingsins og Evrópuráðsins. Að sjálfsögðu eru svo evrópskar eftirlitsstofnanir sem hafa auga með því að þjóðir eins og Íslendingar hafi nægan mannskap við reglugerðafæribandið svo hinn almenni maður hér á landi viti hvernig hann á hegða sér, samkvæmt staðli, og ekki síður svo fyrirtæki viti hvernig þjónustu þau eiga að veita og hvernig vöru þau eiga að framleiða, samkvæmt staðli. Rétt er að hafa í huga að allt þetta reglugerðaflóð er vegna þess sem nefnt hefur verið fríverslunarsamningur Íslands við Evrópusambandið. Já, fríverslunarsamningur! Hvernig eru höft Evrópusambandsins ef þetta reglugerðaflóð er liður í fríverslun?
Fyrir 150 árum vék Frédéric Bastiat að þessari tilhneigingu til að líta á mannkyn sem vél sem aðeins þurfi að stilla með réttum skammti af reglum og opinberum afskiptum. Þetta gerði hann í ræðu og riti, meðal annars í bók sinni Lögunum: „Ég lít ekki á mannkyn eins og Vaucanson á vélmenni sitt, heldur eins og lífeðlisfræðingur á mannlega lífveru: til að skilja og dást að því. Ég skoða mannkyn í sama anda og kunnur ferðalangur lét í ljós. Hann kom í heimsókn til ættflokks villimanna. Barn var nýkomið í heiminn og hópur sjáenda, seiðkarla og skottulækna safnaðist að því með alvæpni af hlekkjum, krókum og fjötrum. Einn þeirra sagði: barnið mun aldrei geta fundið ilm friðarpípunnar nema ég teygi á því nasavængina. Annar sagði: barnið mun ekki hafa neina heyrn nema ég togi eyrun á því niður á axlir. Sá þriðji: það mun aldrei sjá geisla sólar nema ég geri það rangeygt. Sá fjórði: það mun aldrei geta staðið upprétt nema ég skekki á því fótleggina. Sá fimmti: það mun ekki geta hugsað nema ég þjappi í því heilann. Burt! sagði ferðalangurinn: það er vel gert sem Guð gerir; þið skuluð ekki þykjast vita betur en hann, og fyrst hann hefur gefið þessu litla greyi skilningarvit, ættu þið að leyfa þeim að þroskast; styrkjast af æfingu, prófun, reynslu og frelsinu.“
Og áfram hélt Bastiat í Lögunum: „Guð hefur líka gefið mannkyninu allt sem það þarf til að lifa sitt æviskeið. Eins og við þiggjum náttúrulega gerð líkamans, þiggjum við líka náttúrulega gerð samfélagsins. Samfélagslegum skilningarvitum er líka ætlað að þroskast undir heiðum himni frelsisins. Því segi ég: burt með skottulækna og skipuleggjendur! Burt með þeirra hlekki og keðjur, þeirra króka og tangir! Burt með þeirra tilbúnu meðul! Burt með þeirra atvinnubótavinnu, þeirra samyrkjubú, þeirra stjórnvaldahyggju, þeirra miðstýringu, þeirra tolla, þeirra háskóla, þeirra ríkistrú, þeirra vaxtalausu lán, þeirra samþjöppun, þeirra afmörkun, þeirra siðspeki og þeirra jöfnun með sköttum! Og úr því menn hafa hvað eftir annað siglt í strand með að fella samfélagið í alls kyns kerfi, þá ættu menn nú að endingu að gera það sem þeir hefðu átt að byrja á: leggja kerfin til hliðar og láta reyna á frelsið – láta reyna á frelsið og sýna loks traust á Guði og hans sköpunarverki.“