Miðvikudagur 11. júlí 2001

192. tbl. 5. árg.

Fram þjáðir menn í fimmtán löndum...
Fram þjáðir menn í fimmtán löndum…

Stundum mætti ætla af umfjöllun um gjaldeyrismál, gengismál og málefni krónunnar að þau lönd sem nota evru séu með yfirgnæfandi stöðu í utanríkisviðskiptum Íslands. Eldheitir stuðningsmenn aðildar Íslands að skrifbákninu í Brussel láta iðulega að því liggja að evran sé eina von Íslands og án aðildar að Evrópusambandinu og evrunni verði landið fljótlega lítið annað en napurt flæðisker. Staðreynd málsins er þó sú að viðskipti Íslands við evrulönd eru nú tæp 32% mælt með gengisvog íslensku krónunnar, en sú vog ræðst af inn- og útflutningi landsins. Á sama tíma og sama mælikvarða eru viðskipti við Bandaríkin 27%. Þar við bætist að viðskipti við Bandaríkin fara ört vaxandi á meðan viðskipti við evrulöndin vaxa hægt.

Síðasta árið var vöxtur í viðskiptum við Bandaríkin meira en sjöfaldur vöxtur viðskipta við evrulöndin. Með sömu þróun verða viðskipti Íslands við Bandaríkin orðin meiri en viðskiptin við evrulönd innan fjögurra ára. Út af fyrir sig er ekkert sérstakt sem bendir til að þetta sé ólíkleg þróun. Sér í lagi þegar haft er í huga að helsta ástæða aukningar viðskipta með Bandaríkjadal er að þjónustuviðskipti eru í auknum mæli í þeirri mynt og að þjónustuviðskipti fara hlutfallslega vaxandi á kostnað vöruviðskipta. Af þessum framreikningi um þróun utanríkisviðskipta má sjá að góðar líkur eru til þess að það sjónarmið, að taka upp evru á þeim forsendum að þar liggi megnið af viðskiptum Íslands, yrði úrelt áður en hægt yrði að taka upp evruna. Jafnvel þó ákvörðun um slíkt yrði tekin í dag.

Gengisvogin frá gengisskráningu 6. júlí 2001 %
Bandaríkin 26,99
Bretland 14,77
Kanada 1,36
Danmörk 8,68
Noregur 6,08
Svíþjóð 4,44
Sviss 1,65
Evrusvæðið 31,66
Japan 4,37