Miðvikudagur 4. júlí 2001

185. tbl. 5. árg.

„Stofnun Bandaríkjanna er mesta ævintýri mannkynssögunnar“, eru upphafsorð bókar breska sagnfræðingsins Paul Johnson, A History of the American People. Í dag eru 225 ár frá því 13 ríki á strönd Atlantshafs með 3 milljónir íbúa lýstu yfir sjálfstæði frá Englandi og mynduðu Bandaríkin. Í dag búa um 260 milljónir manna í 50 ríkjum Bandaríkjanna. Hvort sem það er tilviljun eður ei eru þessi 225 ár mesta framfaraskeið mannkynssögunnar.

Hvað sem tilviljunum líður er erfitt að ímynda sér heiminn í dag án Bandaríkjamanna. Og það er ekki aðeins vegna þess hve mikilvægir þeir hafa verið í baráttu gegn alræðisöflum um heim allan á nýliðinni öld. Það er ekki síður vegna þess hve stórt framlag þeirra til daglegs lífs okkar er. Bandarískur lífsstíll er raunar sagður tröllríða allri heimsbyggðinni en þegar betur er að gáð eru Bandaríkin sjálf mótuð af fólki víða að sem hefur talið landið rétta staðinn til að hefja nýtt líf með tvær hendur tómar. Margt hefur haft rétt fyrir sér.

Íslendingar hafa notið velvildar Bandaríkjamanna um langt skeið. Engu að síður er vart minnst á sögu Bandaríkjanna í íslenskum skólabókum nema þá til þess að koma ranghugmyndum um Kreppuna miklu og Víetnam stríðið á framfæri. Paul Johnson kvartar reyndar einnig undan þessu skeytingarleysi um sögu Bandaríkjanna í breskum skólum á sínum námsárum í fyrrnefndri bók sinni. Sumir íslenskir vinstrimenn hafa jafnan horn í síðu Bandaríkjanna og eyða miklum tíma, sínum og annarra, í útlistanir á óhæfuverkum þeirra. Víst er að ekki er allt jafn fallegt sem stjórnvöld í einu mesta hernaðarveldi sögunnar hafa tekið sér fyrir hendur. Því má hins vegar ekki gleyma við hvaða andstæðinga hefur verið að eiga. Sumir þeirra hafa verið í hópi mestu illmenna sögunnar og hafa stjórnað alræðisríkjum eða öllu heldur risavöxnum fangabúðum.

Evrópskir vinstrimenn voru oft á tíðum eins og fimmta herdeildin eða áróðursdeild þessara óþokka. Þessar fimmtu herdeildir gengu jafnan undir öfugmælinu „friðarhreyfingar“ og lögðu allt kapp á að spilla samstöðu lýðræðisríkja og veikja varnir þeirra. En jafnvel þeir sem mest hafa gagnrýnt Bandaríkin fyrir yfirgang geta þó ekki án þeirra verið. Um leið og nýr forseti Bandaríkjanna gaf í skyn að hann myndi sinna innanlandsmálum af kappi fengu lesendur evrópskra vinstriblaða að lesa það daglega að forsetinn væri ómögulegur maður sem fylgdi einangrunarstefnu!