Þriðjudagur 3. júlí 2001

184. tbl. 5. árg.

Menn hafa misjafna ástæðu til að gleðjast og gleðja sjálfa sig með misjöfnum hætti. Á forsíðu Morgunblaðsins á sunnudaginn mátti lesa fallega innrammaða frétt um að stjórnvöld í Kína hafi ákveðið að taka upp auðlindagjald, m.a. í fiskveiðum. Að vísu eru það ekki hin lýðræðislega kjörnu stjórnvöld Kína í Tæpei sem ákváðu þetta heldur glæpaflokkurinn sem situr að völdum í Beijing. Á sama tíma hélt glæpaflokkurinn sem gegnir nafninu Kínverski kommúnistaflokkurinn upp á 80 ára afmæli sitt og færði sjálfum sér einmitt þá afmælisgjöf að leggja auðlindagjald á þjóðina.

Fyrsta greinin sem skrifuð var í Vefþjóðviljann fyrir hálfu fimmta ári var raunar um einkennilegan fréttaflutning Morgunblaðsins af auðlindaskattsmálum. Lítið hefur breyst á þeim bæ síðan. Í opnugrein í Morgunblaðinu á sunnudaginn var einnig sagt frá tilraunum Eista með uppboð á veiðiheimildum en stjórnvöld í Eistlandi ætla að bjóða upp 10% aflaheimilda. Vafalaust verður lagt út af þessum heimsviðburði í leiðurum blaðsins næstu daga og klykkt út með því að Íslendingar eigi að fara sömu leið þótt aðstæður hér séu allt aðrar, löng veiðireynsla til staðar og komin löng hefð á eignarrétt á veiðiheimildum. Í leiðurunum verður væntanlega ekki minnst á orð formanna samtaka eistneskra sjómanna og fiskverkenda um uppboðsleiðina. Valdur Noormagi hjá félagi fiskverkenda sagði til dæmis um ástæður þess að stjórnvöld hefja nú uppboð: „Hin raunverulega ástæða [er] að skriffinnar [hafa] séð færi á að komast yfir meira fé, því sá eini sem [hagnast] á kerfinu sé hið opinbera.“