Menn geta byggt mannaráðningar á ýmsum forsendum. Mörg fyrirtæki og stofnanir taka hins vegar fram í atvinnuauglýsingum að þau leggi áherslu á jafnrétti kynjanna við ráðningu starfsmanna eða taka með öðrum hætti fram að þau vilji ekki gera upp á milli fólks á grundvelli kynferðis. Skírskotun til kynferðis er enda orðið nánast óþekkt fyrirbæri í auglýsingum af þessu tagi þótt ekki sé tekið undir það hér að slíkar auglýsingar á vegum einkaaðila séu „mismunun“ sem setja eigi lög og reglur gegn. Stjórnendum einkafyrirtækja á að sjálfsögðu að vera í sjálfsvald sett hvernig þeir haga ráðningum. Vilji þeir láta ástæður er virðast ómálefnalegar, svo sem kynferði, ráða vali sínu á starfsmönnum bera þeir sjálfir kostnaðinn af því að fá ekki hæfasta manninn til starfa.
Ekki er heldur algengt að sjá megi af auglýsingum að fyrirtæki eða stofnanir hyggist byggja ráðningar á öðrum forsendum en almennri kunnáttu og hæfni. Dæmi um það var þó í gær í auglýsingu um laus störf hjá Byggðastofnun. Ekki verður betur séð en að þar sé verið að gefa vísbendingu um að val á starfsmönnum muni ráðast af pólitískum skoðunum þeirra ekki síður en menntun, reynslu, hæfni og öðrum slíkum forsendum. Í auglýsingunni stendur nefnilega feitletrað: „Leitað er að fólki sem hefur frumkvæði í starfi og getur unnið sjálfstætt, trúir á jafnvægi í byggð landsins og vill leggja sitt af mörkum til að snúa óhagstæðri byggðaþróun við“.
Það er ljóst af auglýsingunni að þeir sem vilja alla landsmenn suður eiga vart möguleika á starfi hjá Byggðastofnun.