Föstudagur 29. júní 2001

180. tbl. 5. árg.

Nú er farinn af stað einhvers konar ríkisfarsi um fasteignaviðskipti. Upphafið á Fasteignamat ríkisins sem gefur út svonefnt fasteignamat og brunabótamat. Fasteignamat þetta þjónar þeim eina tilgangi að vera skattstofn fyrir ríki og sveitarfélög. Í útskýringum Fasteignamats ríkisins á fasteignarmati segir raunar: „Fasteignamat er samanlagt húsmat og lóðarmat. Það skal endurspegla staðgreiðsluverð eignarinnar miðað við síðastliðinn nóvembermánuð.“ Þetta var einmitt reynt í Sovétríkjunum. Að vísu var opinberum starfsmönnum þar ekki aðeins falið að meta nóvemberstaðgreiðsluverð heldur verð á öllu alltaf. Fasteignamatið hefur nú verið hækkað eina ferðina enn og við það rjúka eignaskattar og fasteignagjöld upp. Þetta hefur verið leikið árvisst um nokkurra ára skeið og hafa tekjur ríkisins af eignasköttum nær tvöfaldast frá árinu 1999.

Fasteignamat ríkisins gefur einnig út brunabótamat. Í skýringum Fasteignamatsins á því hvað felst í brunabótamati segir: „Brunabótamat skal taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðast við bygginarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.“ Ekki er tekið fram í hvaða mánuði er miðað við að eignin fuðri upp en nóvember er þó líklega ekki verri mánuður en hver annar. Standist þessi útskýring Fasteignamatsins vita starfsmenn þess allt um það hvað mögulegir kaupendur einstakra fasteigna eru tilbúnir til að greiða fyrir þær. Þeir vita með öðrum orðum allt um verðmat allra kaupenda og ekki síður seljenda. Þetta er ævintýri líkast en má ef til vill þakka góðri skráningu í svonefndri Landskrá fasteigna sem hlotið hefur lof á Norðurlöndunum. Líklega hefðu Sovétríkin tórað lengur ef skráning á efnislegum verðmætum með tilliti til aldurs, slits og viðhalds hefði verið nákvæmari.

Og það eru einmitt þessi efnislegu verðmæti metin af Fasteignamati ríkisins og skráð í Landskrá fasteigna sem hafa sett allt á annan endann á fasteignamarkaði. Hér kemur reyndar ný ríkisstofnun til sögunnar en hún lánar mönnum til íbúðarkaupa. Íbúðalánasjóður ríkisins lánar mönnum allt að 70% af brunabótamati Fasteignamats ríkisins á efnislegum verðmætum, að teknu tilliti til aldurs, slits og viðhalds. Í ýmsum tilfellum er mat Fasteignamatsins á hinum efnislegu verðmætum víðs fjarri staðgreiðsluverði eignarinnar – jafnvel þó í nóvember sé. Kaupendur geta jafnvel átt von á því að fá aðeins lánað fyrir 40% af staðgreiðsluverði eignarinnar.

Hvernig færu menn að því að eignast og reka húsnæði ef hinna hjálplegu stofnana ríkisins nyti ekki við?