Nú á tímum þykir mörgum sem það séu sjálfsögð sannindi að frjáls viðskipti – frjáls verslun – séu nauðsynleg ef menn vilja að efnahagslífið blómstri og kjör fólks batni. Að vart verði um það deilt að tollar séu í raun aðeins meðal sem ríki noti til að gera sig sjálf fátækari, og að einstaklingsfrelsið sé í senn réttlátt og skynsamlegt en afskiptasamt ríkisvald, opinber stjórnsemi og ýtarlegar hegðunarreglur séu hvorugt. Þykir mörgum þetta nú svo sjálfsagt, að varla svari kostnaði að deila við þá fáu sem enn séu annarrar hyggju. En staðreyndin er sú, að þó margir tali fjálglega um frjáls viðskipti, „markaðslausnir“ og svo framvegis, þá er allur gangur á því hversu mikill hugur fylgir máli. Og menn þurfa ekki annað en kynna sér málflutning íslensku vinstri flokkanna til að sjá, að sumir eru enn þeirrar skoðunar að rétt sé að hið opinbera setji reglur um næstum allt og komi að ólíklegasta rekstri.
En engu að síður njóta frjáls viðskipti meiri skilnings og stuðnings en oft áður. Og það er rétt að minnast þess, að þau hafa oft átt á brattann að sækja. Í aldanna rás hafa menn þurft að berjast fyrir rétti einstaklingsins til orða og athafna og þurft að glíma við öflug og stjórnsöm ríki sem hafa tekið eigið vald fram yfir sjálfstjórn hins almenna borgara, tekið sérhagsmuni fram yfir hagsmuni hins almenna manns. Meðal þeirra manna, sem mikil áhrif hafa haft á þróun frjálslyndra viðhorfa í heiminum, er Frakki nokkur, Frédéric Bastiat að nafni, sem var áhrifamikill rithöfundur í heimalandi sínu á fyrri hluta 19. aldar. Bastiat var hagfræðingur og þingmaður en hafði einkum áhrif á samtíðarmenn sína og síðari kynslóðir með ritum sínum, en frá honum streymdu bækur og bæklingar um kosti frjálsra viðskipta og ókosti hafta og reglugerða.
Í lok þessarar viku verða liðin 200 ár frá fæðingu Bastiat og af því tilefni mun Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, gefa út í íslenskri þýðingu þekktustu bók hans. Nefnist hún Lögin og fjallar meðal annars um hvert hlutverk laganna er og hvert ekki. Á til dæmis að nota landslög til að hindra óréttlæti eða á að nota þau til að útdeila gæðum? Þarf að takmarka lögin svo komið verði í veg fyrir óréttlæti? Þó sjaldnast sé að marka lýsingar útgefenda á bókum sínum, leyfir Vefþjóðviljinn sér að láta í ljós þá skoðun að Lögin séu ekki síður áríðandi lesning fyrir Íslendinga 21. aldar en þau voru fyrir Frakka á þeirri 19. Eða eru stjórnmálamenn ekki alltaf að færa lög sín út? Og hver tekur ekki eftir þeirri þróun sem allt í einu virðist vera að fara á stað fyrir íslenskum dómstólum og þeim kröfum sem skyndilega eru bornar fyrir þá, að því er virðist í fullri alvöru.
Eins og áður sagði var Frédéric Bastiat afkastamikill og víðlesinn rithöfundur. Meðal þess sem frá honum kom var lítil bænaskrá sem hann skrifaði í nafni kertagerðarmanna, ljósastauraframleiðenda og fleiri stétta sem störfuðu við að lýsa upp borgir og heimili. Kvartaði hann þar – eins og innlendir framleiðendur í öllum löndum á öllum tímum hafa gert – yfir skaðlegri erlendri framleiðslu sem undirbyði hina innlendu starfsmenn. Og hinn erlendi samkeppnisaðili var ekkert lamb að leika sér við eins og nánar kemur fram í bænaskránni, sem Vefþjóðviljinn birtir nú í íslenskri þýðingu. Ætti það að gefa nokkra hugmynd um það hverju væntanlegir lesendur Laganna mega búast við. Bænaskráin er birt á svo kölluðu acrobat-formi (.pdf) sem og á hefðbundnu vefsíðuformi (.htm). Lesendum er frjálst að prenta skjalið út, en til þess hentar acrobat-formið betur.