Laugardagur 23. júní 2001

174. tbl. 5. árg.

Megi nokkuð marka Morgunblaðið er til maður sem ber nafnið Jónas Garðarsson og titlar sig formann Sjómannafélags Reykjavíkur. Að því gefnu að þetta sé rétt hefur þessi maður ritað óteljandi greinar í Morgunblaðið um málefni eins skipafélags, Atlantsskipa, og er honum mjög uppsigað við skipafélagið. Svo mjög er honum í nöp við það að hann hótaði í blaðagrein á síðasta ári að Sjómannafélagið mundi innan tíðar stöðva flutninga Atlantsskipa „með valdi“ haldi þeir áfram. Síðan hefur þessi maður ritað nokkrar greinar og að minnsta kosti þrjár á þessu ári. Allar eru þær fróðlegar vísindamönnum, en fáum öðrum gagnlegar.

Nýjasta greinin í greinaflokknum Jónas gegn Atlantsskipum
Nýjasta greinin í greinaflokknum Jónas gegn Atlantsskipum

Aðrir hafa raunar af þeim minna en ekkert gagn, því höfundur þeirra hefur það að markmiði að hækka kostnað við flutninga með skipum til og frá landinu og þarf ekki að hafa mörg orð um afleiðingar þess fyrir verð innfluttrar vöru og þar með líka verðbólgu og afborganir lána. Eins og aðrir sérhagsmunapotarar býður hann vissulega upp á aðrar röksemdir, en markmið hans er að sem flestir af félagsmönnum hans fái vinnu við að sigla milli Íslands og annarra landa en ekki að siglt verði gert með sem ódýrustum hætti. Vandinn við sérhagsmunahópa, eins og Sjómannafélag Reykjavíkur í þessu tilviki, er að þeir hafa aðeins eigin hagsmuni að leiðarljósi og eru vel skipulagðir og hafa yfirleitt á að skipa launuðu starfsfólki og „sérfræðingum“ sem hafa ekkert annað hlutverk en verja þessa sérstöku hagsmuni. Aðrir hafa hins vegar svo litla hagsmuni af því hver og einn, að berjast gegn sérhagsmununum, að ekkert verður úr baráttunni fyrir hagsmunum almennings. Og hér á landi hafa menn raunar verið svo lánlausir að Neytendasamtökin, sem ætla mætti að legðust á sveif með þeim sem vilja flytja ódýrt til landsins, þau eru upptekin við að tala um verðmerkingar í verslunum eða hamast gegn fríðindakortum, í stað þess að fjalla um raunverulega hagsmuni neytenda.

Fáir eru því til andsvara þegar Jónas Garðarsson geysist fram á ritvöllinn og vegur að starfsemi skipafélags og hótar jafnvel ofbeldi til að ná vilja sínum fram.